Körfubolti

Ætla að skipta aðalstjörnunni í burtu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trae Young hefur verið andlit Atlanta Hawks undanfarin ár.
Trae Young hefur verið andlit Atlanta Hawks undanfarin ár. getty/Todd Kirkland

Eftir að hafa leikið með Atlanta Hawks allan sinn feril í NBA er Trae Young væntanlega á förum frá félaginu.

Samkvæmt frétt ESPN vinna Atlanta og umboðsmenn Youngs að því að finna hentug skipti fyrir leikstjórnandann.

Young á tvö ár eftir af samningi sínum við Atlanta en félagið ákvað að bjóða honum ekki framlengingu á honum.

Dallas Mavericks valdi Young með fimmta valrétti í nýliðavalinu 2018 en skipti honum strax til Atlanta.

Young hefur fjórum sinnum spilað í Stjörnuleik NBA og var stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili með 11,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Með Young í broddi fylkingar komst Atlanta í úrslit Austurdeildarinnar 2021.

Haukarnir virðast nú ætla að breyta um kúrs og treysta enn meira á Jalen Johnson og Nickeil Alexander-Walker sem eru stigahæstu menn liðsins í vetur.

Hinn 27 ára Young hefur aðeins tekið þátt í tíu leikjum á þessu tímabili vegna meiðsla. Í þessum tíu leikjum hefur hann skorað 19,3 stig og gefið 8,9 stoðsendingar að meðaltali.

Atlanta er í 10. sæti Austurdeildarinnar og hefur tapað átta af síðustu tíu leikjum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×