Körfubolti

„Þessi frammi­staða breytir ekki getunni í liðinu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Finnur Freyr fer yfir málin
Finnur Freyr fer yfir málin Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var bara virkilega slök frammistaða af okkar hálfu í dag,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, eftir tap sinna manna gegn Stjörnunni í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld.

„Við vorum slakir á báðum endum vallarins og Stjarnan miklu betri í dag,“ bætti Finnur við.

Óhætt er að segja að Valsmenn hafi byrjað leikinn illa. Stjarnan skoraði fyrstu 12 stig leiksins og komst í 5-21 áður en Valsmenn náðu loksins að kveikja aðeins á sér.

„Ég held að vandamálið sé að við séum bara að mæta of stórir til leiks. Það er oft þannig að þegar maður er búinn að vinna einhverja leiki í röð og allir að tala um mann, eins og þið, að þá erum við allt í einu farnir úr því að vera áhyggjuefni yfir í að vera einhverjir kandídatar. Það er alltaf hætta á því að þú farir að hlusta á suðið í kringum þig og trúa því. En við þurfum að átta okkur á því, og vitum það, að til þess að vera góðir í körfubolta og eiga góða leiki þá þurfum við að leggja inn vinnuna á gólfinu.“

Valsmenn lentu mest 27 stigum undir um miðbik 3. leikhluta, en komu nokkuð óvænt til baka og náðu að búa til spennandi lokamínútur.

„Það fer bara í gang eitthvað svona dæmi þar sem við erum að reyna að breyta taktinum okkar og það er fullt af gæðum í liðinu okkar. Við erum með gott lið og við fórum kannski að leggja aðeins harðar að okkur og kannski kom líka bara smá skap í okkur. Eitthvað sem mér fannst vanta framan af.“

„Þetta er uppskrift að körfuboltaleik sem maður hefur séð margoft áður. Annað liðið kemst vel yfir, en slakar svo aðeins á og við verðum reiðir og reynum að komast aðeins til baka. Þetta var bara aðeins of stór hola og svo voru bara klikk hér og fráköst þarna. Ef þú ætlar að koma til baka þá þarftu að ná fullkomnun þegar holan er svona djúp. Við áttum ekki fullkomna endurkomu.“

Þá segir Finnur að þessi leikur hafi verið ágætis leið til að draga sína menn niður á jörðina, þó hann hefði vissulega viljað gera það án þess að þurfa að tapa til þess.

„Maður vill bara frekar gera það án þess að tapa leikjum. Ég held að það sé mannlegt þegar vel gengur að eitthvað gerist. Ég horfi á þetta sem frammistöðu, en þessi frammistaða breytir ekki getunni í liðinu. Þetta sýnir bara svart á hvítu að ef við leggjum okkur ekki fram og gerum hlutina ekki af krafti þá fer illa. Það er lærdómurinn sem við tökum úr þessu,“ sagði Finnur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×