Enski boltinn

Hversu lengi þolir Liverpool-fólk þennan hund­leiðin­lega fót­bolta?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hugo Ekitike er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni en hann er að glíma við meiðsli.
Hugo Ekitike er markahæsti leikmaður Liverpool á leiktíðinni en hann er að glíma við meiðsli. Getty/Carl Recine/

Eftir hvert tapið á fætur öðru eru Englandsmeistarar Liverpool hættir að tapa leikjum en nú er það spilamennska liðsins inni á vellinum sem pirrar harða suðningsmenn félagsins.

Liverpool hefur leikið níu leiki í röð án þess að tapa en hefur ekki boðið upp á merkilegan fótbolta að undanförnu og tapaði fjórum stigum á móti Leeds United og Fulham í síðustu leikjum.

Sigrarnir detta ekki í hús þessa dagana og það sem er verst að mati margra er að liðið spilar nú leiðinlegan og kraftlítinn fótbolta. Spilamennskan sem Liverpool býður upp á undir stjórn Arne Slot í dag gæti ekki verið ólíkari þungarokksfótboltanum sem liðið spilaði undir Jürgen Klopp.

Jordan Chamberlain er stuðningsmaður Liverpool og hann benti á þessa staðreynd.

„En það er ekki glæpsamlegt“

„[Arne] Slot til hróss hefur vörnin að mestu verið styrkt. Við erum ekki lengur að gefa mörg færi á okkur. Við erum ekki alveg opnir á miðjunni. Stundum sleppur eitt og eitt fast leikatriði í gegn og við erum seinir að loka á skot andstæðinganna, en það er ekki glæpsamlegt,“ skrifaði Jordan Chamberlain á síðu breska ríkisútvarpsins.

„En þetta er hundleiðinlegt – sköpunargleðin, hraðinn og útsjónarsemin á síðasta þriðjungi vallarins er verulega af skornum skammti,“ skrifaði Chamberlain.

„Vandamálið undanfarið eru ekki bara úrslitin, því við höfum efni á nokkrum jafnteflum ef við stefnum á sæti í Meistaradeildinni, heldur er það sársaukafullur hægur leikur og skortur á ákefð. Slot þarf að breyta einhverju. Aðdáendur Liverpool munu ekki sætta sig við þennan slaka fótbolta allt tímabilið,“ skrifaði Chamberlain.

Hundleiðinlegt að horfa á Liverpool

Liverpool gerði markalaust jafntefli í fyrsta leik nýs árs, á heimavelli á móti Leeds, en það var áfall fyrir marga stuðningsmenn Liverpool að sjá umræddan skort á ákefð og krafti í leik liðsins.

Það er hreinlega orðið hundleiðinlegt að horfa á Liverpool-liðið spila og stóra spurningin er nú: Hversu lengi þola stuðningsmenn Liverpool þennan hundleiðinlega fótbolta? Næst á dagskrá er risastórt verkefni í kvöld þegar Liverpool sækir topplið Arsenal heim á Emirates-leikvanginn í Norður-London.

Liðin mín reyna alltaf að spila sóknarbolta

Knattspyrnustjórinn Arne Slot var spurður út í þetta á blaðamananfundi fyrir leikinn í kvöld.

„Mér finnst mjög erfitt að heyra þetta en það er ekki þannig að ég sé algjörlega ósammála. Ég myndi nota önnur orð og ég myndi taka ákveðna hluti til greina. Ég vil vinna eins marga titla og ég get en ég held að ég sé líka þekktur fyrir það að liðin mín reyna alltaf að spila sóknarbolta. Ég get aðeins sagt að við erum enn að reyna að gera það,“ sagði Slot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×