Skoðun

Stingum af

Einar Guðnason skrifar

Í fréttum er það helst að stuðningsmaður Miðflokksins birti myndband með myndum frá gömlum tímum á Íslandi og laginu „stingum af“ eftir Mugison. Skilaboð höfundar virðast nokkuð skýr um að hann sakni einfaldari tíma á Íslandi. Það er því miður ekki nýtt að ungir Íslendingar á aldrinum 18–35 ára vilji „stinga af“ en þeir hafa verið á stöðugum flótta til annarra landa í leit að bjartari framtíð. Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein um það að Ísland sé orðið landið sem unga fólkið flýr og eiga þau skilaboð enn vel við.

Á árunum 2022–2024 voru 1315 brottfluttir umfram aðflutta í þessum aldurshópi ungra Íslendinga. 1315 fleiri sem fluttu úr landi en þeir sem fluttu aftur heim. Þetta er stórt vandamál.

Hvers vegna sér ungt fólk ekki framtíð á Íslandi? Hvað veldur því að þau vilji stinga af? Svarið liggur ekki bara í einum málaflokki, fyrsta spurningin sem þarf að svara er hvar maður eigi eiginlega að byrja?

Skortur á leikskólaplássum, grunnskólavandi, ópraktískt fæðingarorlofskerfi, úrræðaskortur fyrir börn með fjölþættan vanda, biðlistar, bólginn húsnæðismarkaður, verðbólga, vextir, samgöngumál — ég gæti haldið áfram.

Svo horfir maður á „planið“ og forgangsröðunin virðist vera einhver allt önnur en innviðauppbygging og málefni Íslendinga. Við setjum tugi milljarða króna í flóttamannaaðstoð og á meðan þurfa íslenskar mæður að fara með syni sína til Suður-Afríku á eigin kostnað til þess að þeir geti fengið aðstoð við fíknivanda. Við skuldbindum framtíðarkynslóðir til að borga hundruði milljarða króna í loftslagsmál sem þau geta lítið gert til þess að leysa og á meðan lengjast biðlistar í heilbrigðiskerfinu og námsárangur versnar. Við byggjum hagkerfið á óheftu innfluttu vinnuafli og á meðan bólgnar húsnæðisverð út og ungt fólk á sér enga von í að eignast húsnæði fyrir fertugt.

Svo þegar þau reyna að benda á að keisarinn sé nakinn þá eru þau stimpluð sem öfgafull. Er það furða að ungir Íslendingar vilji stinga af í von um að grasið sé grænna hinum megin?

En það er skammgóður vermir að stinga af. Við getum ekki bara setið hjá og leyft atvinnustjórnmálamönnum að skuldsetja framtíðina með skuldum sem ungir Íslendingar hafa augljóslega engan áhuga á því að borga. Við verðum að taka höndum saman og kalla eftir breyttri stefnu, að setja Ísland fyrst og skapa aðstæður þar sem ungir Íslendingar bera von í brjósti fyrir framtíðinni á Íslandi.

Forfeður okkar hræddust þetta ekki. Þeir börðust fyrir fullveldi og sjálfstæði, settu fram kröfur í alþjóðasamningum á borð við NATO og EES sem stjórnvöld í dag myndu aldrei þora að gera og stóðu fast á sínu gagnvart Bretum í þorskastríðunum, enda var þeim alveg sama um að ganga í augun á alþjóðasamfélaginu. Það eina sem skipti þá máli voru hagsmunir Íslands.

Lausnirnar við því hvernig við fáum unga fólkið okkar heim og að þau hætti að stinga af eru ekki einfaldar og þarf að þora að taka erfiðar ákvarðanir til þess að skapa þær aðstæður. Fyrsta skrefið tel ég þó einfalt og það er að senda skýr skilaboð í forgangsröðun: Ísland fyrst, svo allt hitt.

Höfundur er formaður Miðflokksdeildar Kópavogs og varaþingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×