Neytendur

Gert að af­henda bú­slóðina eftir að hafa haldið henni í gíslingu

Atli Ísleifsson skrifar
Í tilboðinu fólst flutningur á þremur brettum af búslóð, að fjárhæð 180 þúsund krónur hvert, og einum ferðavagni að fjárhæð 250 þúsund krónur. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Í tilboðinu fólst flutningur á þremur brettum af búslóð, að fjárhæð 180 þúsund krónur hvert, og einum ferðavagni að fjárhæð 250 þúsund krónur. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. GETTY

Manni sem starfar í flutningsþjónustu hefur verið gert að afhenda viðskiptavini, konu, hluta búslóðar hennar gegn greiðslu eftirstöðva upphafslegs samnings þeirra í millum, alls 290 þúsund króna. Maðurinn hafði haldið búslóðinni gíslingu og gefið út reikning sem var þrefalt hærri en upphaflega hafði verið samið um munnlega.

Þetta kemur fram í nýjum úrskurði kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Konan kvartaði til nefndarinnar og rakti þar atvik málsins. Hún hafði leitað til fyrirtækis sem auglýsti þjónustu við búslóðaflutninga.

Viðskiptavinurinn átti í nokkrum samskiptum við starfsmann fyrirtækisins varðandi verð fyrir þjónustuna en að endingu hafi maðurinn gert viðskiptavininum munnlegt tilboð að fjárhæð 790 þúsund krónur.

Í tilboðinu fólst flutningur á þremur brettum af búslóð að fjárhæð 180 þúsund krónur hvert, og einum ferðavagni að fjárhæð 250 þúsund krónur, frá heimili konunnar og á annan stað í öðru landi, ásamt sköttum, tollum og öðrum gjöldum. Í úrskurðinum er ekki nánar tekið fram hvert átti að flytja búslóðina.

Konan sagði það hafa verið hennar skilningur að hún væri að semja við fyrirtækið en síðar hafi hins vegar komið í ljós að starfsmaðurinn væri persónulega að veita hina umsömdu þjónustu.

Kom tvívegis á heimili konunnar

Maðurinn kom tvívegis á heimili konunnar, viðskiptavinarins, til að sækja þá hluti sem flytja átti, dagana 23. september og 11. október 2024. Þá upplýsti flutningamaðurinn að búslóðin og ferðavagninn yrðu send til í tveimur ferðum þar sem það væri hagstæðara fyrir viðskiptavininn vegna innflutningsgjalda.

Flutningamaðurinn óskaði síðar í október eftir að konan myndi millifæra inn á bankareikning hans hálfa milljón króna vegna þjónustunnar, sem hún og gerði. Í byrjun desember 2024 var hluti búslóðarinnar afhentur og tíu dögum síðar ferðavagninn. Konan óskaði þá eftir upplýsingum hvenær síðasta brettið yrði afhent en svörin höfðu verið óljós og hafi sá hluti búslóðarinnar enn ekki verið afhentur.

Maðurinn kom tvívegis á heimili konunnar, viðskiptavinarins, til að sækja þá hluti sem flytja átti, dagana 23. september og 11. október 2024. Myndin er úr safni.Getty

Í lok mars 2025 gaf flutningamaðurinn út reikning á hendur konunni fyrir eftirstöðvum flutningskostnaðar að fjárhæð 1.645.200 krónur. Heildarkostnaður við þjónustuna var því skyndilega orðinn 2.145.200 krónur, næstum þrefalt hærri en um hafði verið samið.

Brást ekki við

Fyrir nefndinni sagði konan að flutningamaðurinn hafi neitað að afhenda restina af búslóðinni nema gegn greiðslu reikningsins að upphæð 1.645.200 krónur. Konan vísaði jafnframt til þess að samskipti við flutningamanninn hafi verið afar erfið og hann haft í ýmsum hótunum í hennar garð.

Konan leitaði að lokum til kærunefndarinnar og krafðist þess að flutningamaðurinn myndi efna munnlegt samkomulag með afhendingu á hluta búslóðar hennar gegn greiðslu að fjárhæð 290 þúsund króna – það er eftirstöðva hins munnlega samkomulags.

Flutningamaðurinn – það er varnaraðilinn í málinu – veitti hvorki andsvör né skilaði gögnum við meðferð málsins og byggði nefndin því niðurstöðu sína á gögnum og svörum frá konunni, það er sóknaraðila. Það var niðurstaða nefndarinnar að flutningamanninum bæri að afhenda konunni restina af búslóðinni gegn greiðslu eftirstöðva umsamins verðs, það er 290 þúsund króna.


Tengdar fréttir

Gat ekki skoðað myglu­her­bergið vegna „sofandi barns“

Fasteignasala þarf að greiða kaupanda fasteignar andvirði viðgerða vegna myglu í herbergi eignarinnar – samtals 1,1 milljón króna – þar sem kaupandanum var ekki gefið færi á að skoða almennilega eitt herbergjanna. Þá hafi kaupandanum ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um ástand fasteignarinnar.

Tilboð á uppþvottavél reyndist of gott til að vera satt

Nýleg kaup konu á uppþvottavél frá Rafha á tíu þúsund krónur reyndust of góð til að vera sönn. Konan krafðist þess að raftækjabúðinni yrði gert að standa við söluna sem byggðist á tæknilegum mistökum í sölukerfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×