Skoðun

Borgar það sig að panta mat á netinu?

Jóhann Már Helgason skrifar

Við Íslendingar erum fljót að tileinka okkur nýja tækni. Við greiðum með símanum okkar, notumst við rafræna undirritun, stundum bankaviðskipti á netinu og pöntum næstum því allt, eins og föt og jólagjafir, án þess að fara nokkurn tímann út. Ef eitthvað er hægt að gera stafrænt veljum við það yfirleitt fram yfir hitt. Nýlegir tilboðsdagar eins og Svartur föstudagur og rafrænn mánudagur hafa heldur betur fest sig í sessi.

Nema þegar matvara er annars vegar, matvöruverslun er á undarlegan hátt föst í fortíðinni á tímum þar sem næstum allir þættir daglegs lífs hafa færst á netið.

Annar valkostur stendur loks til boða

Íslenskar verslanir hafa í auknum mæli farið að senda matvörur heim. Fyrir íslensk heimili þýðir þetta að þau geta fengið nauðsynjar, snarl, gos, súkkulaði, skógjafir og jafnvel hluti eins og gjafapappír sent heim að dyrum á innan við klukkutíma.

Þetta er einnig hluti af stærri viðsnúningi á Norðurlöndunum þar sem leiðandi matvörukeðjur eins og Meny í Noregi og Danmörku, ICA í Svíþjóð og K-Market í Finnlandi eru komnar með sínar vörur í heimsendingarþjónustu. Um er að ræða hryggjarstykkið í norrænni matvöruverslun en það sem hefur breyst er einfaldlega hvernig hægt er að nálgast þær.

Þrátt fyrir þessa þróun eru Norðurlöndin engu að síður eftir á þegar kemur að matarinnkaupum á netinu.

Í Noregi eru aðeins tvö prósent matvöru keypt á netinu. Tvö prósent í einu þróaðasta stafræna samfélagi heims! Ástandið er svipað á Íslandi, þrátt fyrir alla sína tækni.

En af hverju orsakast þetta?

Í fyrsta lagi telja margir að heimsendingar með matvöru séu dýrari. Einstaklingur greiðir vissulega kostnað vegna heimsendingar en ef dæmið er reiknað til enda þá er hægt að færa sterk rök fyrir því heimsending sé í raun ódýrari.

Hér þarf að taka með í reikninginn hluti eins og tímasparnað, kostnað vegna eldsneytis og skyndikaup (hlutir sem læðast með í körfuna þína í búðinni en gera það síður á rafrænu formi).

Aðrir gera ráð fyrir að úrvalið sé takmarkað eða að afurðirnar verði ekki eins ferskar, en þetta eru í langflestum tilfellum mýtur og ef þú ert ósáttur við gæði vörunnar þá er einfaldlega hægt að koma á framfæri athugasemdum og fá endurgreiðslu án mikillar fyrirhafnar.

Desember er mánuðurinn þegar tíminn verður okkar sjaldgæfasta auðlind. Milli jólatónleika, baksturs, gjafapökkunar, skólaviðburða, vinnuskila og alls þess sem fyllir íslenska hátíðardagatalið þá gæti heimsending á mat létt þér lífið þegar þú þarft mest á því að halda.

Norðurlöndin hafa leitt heiminn í stafrænum innleiðingum í mörg ár. Heimsending á matvöru er næsta stig og breytingin hefur þegar hafist.

Spurningin er ekki hvort að heimsending á matvöru á netinu sé tilbúin, heldur hvort við séum loksins tilbúin til að gera okkur lífið auðveldara, sérstaklega á annasamasta tíma ársins?

Ég held að Íslendingar séu það og þegar við stígum skrefið munum við velta fyrir okkur hvers vegna við biðum svona lengi.

Höfundur er forstöðumaður viðskiptastýringar Wolt á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×