Skoðun

Skattahækkanir í felum – á­rás á heimilin

Lóa Jóhannsdóttir skrifar

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2026 er að finna langan lista af skattahækkunum sem samanlagt nema tugum milljarða króna. Þær eru kynntar sem tæknilegar lagfæringar, verðlagsuppfærslur eða „nauðsynlegar“ breytingar, en í raun er hér um að ræða beina atlögu að heimilum landsins. 

Sú breyting sem stendur upp úr, og sem hvað alvarlegastar afleiðingar hefur fyrir fjölskyldur, er afnám samsköttunarheimildar hjóna og sambýlisfólks milli tveggja skattþrepa. Með þessari ákvörðun tekur ríkissjóður um 2,8 milljarða króna beint úr heimilisbókhaldi landsmanna. Þetta eru ekki peningar sem „kerfið“ á, þetta eru peningar sem fara annars í afborganir, mat, íþróttir barna og daglegt líf. 

Þessi breyting bitnar verst á fjölskyldum þar sem tekjur eru ójafnar, oft ungu fólki, barnafjölskyldum og þeim sem hafa þurft að laga atvinnuþátttöku að aðstæðum. Þetta er skattahækkun sem refsar fjölskyldueiningunni – og það er óásættanlegt. 

Innviðagjald skemmtiferðaskipa gekk of langt

Annað sláandi dæmi um illa ígrundaða skattastefnu er innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa. Hér var gengið of langt, of hratt og án nægjanlegs samtals við greinina. Niðurstaðan er sú að hafnir landsins horfa nú fram á allt að 95% fækkun í skipakomum. 

Þetta er ekki bara tölfræði á blaði, þetta eru tekjur sem hverfa úr byggðarlögum, störf sem tapast og tækifæri sem glatast. Í stað þess að þrengja að greininni enn frekar þurfum við að snúa vörn í sókn. Skynsamlegasta leiðin væri að fella niður innheimtu gjaldsins fyrir árið 2026, til að vinda ofan af hruninu í skipakomum, og ef greiða á gistináttaskatt sé hann sanngjarn og með skýrum fyrirsjáanleika til framtíðar. Þar ættu börn 12 ára og yngri að vera undanskilin

Kílómetragjald og vörugjöld – enn einn reikningurinn á almenning 

Þá er ekki hjá því komist að nefna kílómetragjaldið, sem mun taka rúma 3 milljarða króna til viðbótar úr veskjum bifreiðareigenda. Þetta bitnar sérstaklega á fólki á landsbyggðinni, þar sem bíllinn er ekki lúxus heldur nauðsyn. 

Vörugjöldin bætast ofan á þetta og nema um 7,5 milljörðum króna í auknum álögum á almenning. Ofan á allt saman kemur svo krónutöluhækkun upp á 3,7%, sem étur enn frekar upp ráðstöfunartekjur fólks án þess að þjónusta eða innviðir batni að sama skapi. 

Samlagningin skiptir máli 

Hver skattur fyrir sig kann að vera réttlættur í ræðu eða greinargerð, en þegar þeir eru lagðir saman blasir myndin við: ríkisstjórnin hefur valið að fjármagna stór aukin útgjöld með því að seilast sífellt dýpra í vasa almennings. Ríkisstjórnin sem sagði ítrekað að þau ætluðu ekki að hækka skatta á venjulegt fólk. Þetta er ekki félagslegt réttlæti og þetta er ekki ábyrg efnahagsstjórn. 

Ég hafna þessari nálgun. Tel að ríkisfjármál eigi að byggjast á forgangsröðun, aðhaldi og virðingu fyrir heimilunum í landinu en ekki stöðugum skattahækkunum sem eru faldar í flóknum frumvörpum. 

Spurningin sem ríkisstjórnin þarf að svara er einföld: Hversu oft ætlar hún að senda reikninginn til sama fólksins, venjulega fólksins? 

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi




Skoðun

Sjá meira


×