Viðskipti innlent

Sól­veig Kol­brún og Harpa Björg til Iðunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Kolbrún Pálsdóttir og Harpa Björg Guðfinnsdóttir.
Sólveig Kolbrún Pálsdóttir og Harpa Björg Guðfinnsdóttir. Iðan

Harpa Björg Guðfinnsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri þróunar þekkingar hjá Iðunni fræðslusetri og þá hefur Sólveig Kolbrún Pálsdóttir verið ráðin deildarstjóri markaðs- og sölumála.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iðunni fræðslusetri. Þar segir að Harpa muni leiða teymi leiðtoga Iðunnar, sem þrói fræðslu fyrir þær iðngreinar sem Iðan þjónusti og vinni að alþjóðaverkefnum. 

„Harpa kemur til Iðunnar frá Reykjavík Sightseeing þar sem hún var forstöðumaður mannauðssviðs frá árinu 2023. Áður starfaði Harpa í 4 ár sem mannauðsráðgjafi á menntasviði Kópavogsbæjar og samtals í 12 ár sem fræðslustjóri í álverum, hjá bæði Rio Tinto og Norðurári, auk þess sem hún var um árabil stundakennari og leiðbeinandi lokaritgerða samhliða öðrum störfum. Harpa er menntaður grunnskólakennari og með MA gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.

Sólveig stýrir markaðs- og sölumálum félagsins. Hún kemur til Iðunnar frá Ljósinu, þar sem hún markaðs- og kynningarstjóri í 7 ár. Áður starfaði Sólveig í 10 ár hjá Iceland Travel, m.a. sem sérfræðingur í markaðsmálum. Sólveig er með M.Sc. gráðu í markaðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og B.Sc. í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Vilborgu Helgu Harðardóttur, framkvædastjóra Iðunnar, að hún sé afar ánægð að hafa fengið Hörpu og Sólveigu til liðs við Iðuna fræðslusetur. „Þær búa yfir víðtækri reynslu og sterkri leiðtogahæfni sem mun nýtast vel við að efla enn frekar starfsemi og ásýnd Iðunnar sem leiðandi fræðsluseturs fyrir iðngreinar,“ segir Vilborg Helga.

Um Iðuna segir að það um sé að ræða leiðandi fræðslusetur í iðnaði og þjónustar bílgreinar, bygginga- og mannvirkjagreinar, málm- og véltæknigreinar, matvæla- og veitingagreinar og prent- og miðlunargreinar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×