Skoðun

Hvaða ein­kennir góðan stjórn­mála­mann?

Berglind Guðmundsdóttir skrifar

Nú er um ár síðan ég hnaut um pólitíkina, ef svo má að orði komast. En pólitík var eitthvað sem ég ætlaði aldrei að koma nálægt og ég held ég hafi tekið þá ákvörðun mjög ung.

Ég man eftir að heyra fullorðna fólkið ræða pólitík sem var að mínu mati tilgangslaust þras, án þess að einhver niðursstaða fengist í málið. Þetta fannst mér ekki heillandi og ákvörðunin var tekin; Ég ætlaði aldrei að koma nálægt pólitík.

En svo er það þetta með aldrei, það virðist nefninlega elta mann uppi.

Ég valdi ekki pólitíkina, heldur valdi hún mig. Aðdragandinn að því er reyndar bráðskemmtilegur, en látum hann liggja á milli hluta að þessu sinni. Í stuttu máli þá kolféll ég fyrir stjórnmálaflokki. Ég kolféll fyrir fólkinu, orkunni, málefnunum, ástríðunni og gleðinni. Kolféll svona eins og þegar maður verður ástfanginn. Ástin mætti þegar ég síst átti von og alls ekki af mínum draumaprinsi, heldur stjórnmálaflokki. Já - ég veit!

Undanfarið ár hef ég svo verið að að bæta upp fyrir 48 ára áhugaleysi um pólitík og öllu sem henni viðkemur. Ég hef mætt á ótal málþing, pallborð, horft á Alþingisrásina og komið sjálfri mér á óvart hversu gaman ég hef haft af þvi að mæta og læra. Auðvitað er sumt alveg drepleiðinlegt, en það er eins og með leiðinlega bók að stundum þarf ekki nema eina setningu sem að hittir i mark til að lesturinn borgi sig.

En til að koma mér að aðalatriðinu þurfum við að spóla 10 ár aftur í tímann. Þá var ég með tiltölulega nýlegt matarblogg þegar einn daginn, alveg upp úr þurru, kom til mín spurningin; Hverjir geta gefið út bók? . Svarið kom ekki svo löngu síðar, svona eins og ljósaperu-móment. Allir geta gefið út bók. Maður býr til bók og gefur hana út - punktur. Þremur matreiðslubókum og allskonar vexti, breytingum og þroska síðar - er ný spurning mætt;

Hvaða einkennir góðan stjórmálamann?

Er til dæmis nóg að vera góð manneskja og vilja vel?

Ég held að það við höfum öll gott af því að velta því fyrir okkur hvaða eiginleika við viljum að einkenni fólkið sem er við stjórnvölinn, en jafn mikilvægt held ég að fólkið sem er við stjórnvölinn geri slíkt hið sama.

Ég veit ekkert hvert þessi spurning leiðir mig en pælingarnar eru hafnar.

Höfundur er í stjórn Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×