Viðskipti innlent

Skilja töskur eftir ef von er á kröftugum mót­vindi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðni segir þetta ekki gerast oft.
Guðni segir þetta ekki gerast oft. Vísir/Anton Brink

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair segir ferðatöskur skildar eftir á áfangastað ef vélin er orðin of þung og það sé spá um mikinn og kröftugan mótvind. Það gerist ekki oft en líklegra sé að það gerist ef flugin eru löng.

„Við plönum flugið ekki svona en það er hins vegar þannig að þegar að það er sterkur mótvindur lengist eðlilega flugleiðin og þessi tilfelli koma upp þannig,“ segir Guðni og að þá séu þyngdartakmarkanir á farmi flugvélar. Félagið taki frekar farm en farþega af fluginu. 

Guðni fór yfir þessi mál í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Tilefnið var spurning sem þáttastjórnendum barst um þetta í tengslum við flug frá Orlando í lok október.

„Það er í raun það sem við getum gert til að bregðast við þessu,“ segir hann og tekur sem dæmi flug þann 31. október frá Florida þar sem flugleiðin lengdist um 35 mínútur við slíkar aðstæður.

„Þetta er ekki eitthvað sem við gerum venjulega, heldur í þessum tilfellum, þegar það er mótvindur,“ segir Guðni og að þetta sé öryggisatriði. Það séu kröfur og útreikningur og félagið verði að gera þetta.

Hann segir að í þessu tilfelli hafi þær töskur sem voru skildar eftir farið með flugi daginn eftir til Orlando og verið ekið beint til gististaða fólks. Hann segir þetta ekki gerast oft en það sé líklegra að þetta gerist á lengstu flugleiðunum. Flugið til Orlando sé til dæmis sjö tímar.

Hann segir starfsmenn fá fyrirmæli um hversu margar eigi að taka úr fluginu og það sé bara happdrætti hverjar eru teknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×