Skoðun

Þröng Sýn

Hallmundur Albertsson skrifar

Nýverið ritaði forstjóri Sýnar grein sem bar yfirskriftina „Vegið að heilbrigðri samkeppni”. Inntak greinarinnar er það að með ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 8/2025 frá 5. nóvember sl. um að fallast á beiðni Símans um flutningsrétt á línulegum sjónvarpsstöðvum Sýnar hafi Fjarskiptastofa tekið ákvörðun sem sé “alvarleg niðurstaða fyrir íslenskt atvinnulíf, heilbrigða samkeppni og hagsmuni neytenda til lengri tíma.”

Í annarri umfjöllun Sýnar um málið og stöðu rekstrar félagsins má draga þá ályktun að ætlun Sýnar með kaupum á réttinum að Enska boltanum hafi verið að fjölga áskriftum félagsins í fjarskiptum.

Ummæli forstjórans eru athyglisverð fyrir margra hluta sakir og vekja upp spurningar. Verður þar að nefna að Sýn átti um margra ára skeið í ágreiningi við Símann um aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans og byggði helst á því að með því að heimila ekki Sýn aðgang að efninu til dreifingar væri brotið gegn fjölmiðlalögum og samkeppnislögum. Ekki er ástæða til að rekja þær lagaflækjur í smáatriðum en fyrir liggur að fallist var á sjónarmið Sýnar að talsverðu leyti í þeim ágreiningi. Bjuggu þar m.a. að baki sjónarmið um að lóðrétt samþætting fjarskipta- og fjölmiðlaþjónustu væri til þess fallin að raska samkeppni.

Hitt er þó merkilegra að Sýn hefur haft stór orð um tilvitnaða ákvörðun Fjarskiptastofu um að heimila Símanum dreifingu á sjónvarpsstöðvum Sýnar um dreifikerfi sitt. Ástæðan fyrir því er sú að í 1. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga sem samþykkt voru á árinu 2011 er með skýrum og ótvíræðum hætti mælt fyrir um að ”Fjölmiðlaveitu er skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um að fjarskiptafyrirtæki fái að flytja sjónvarpsútsendingar á stafrænu fjarskiptaneti sínu ... ”.

Sögulegan bakgrunn ákvæðisins er að rekja til vinnu nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla frá apríl 2005. Var ein af megintillögum nefndarinnar í því skyni að vinna gegn skaðlegri lóðréttri samþættingu milli fjölmiðlafyrirtækja og fjarskiptafyrirtækja að lögfesta ákvæði um flutningsrétt, þ.e. skyldu fjölmiðlafyrirtækja til að veita fjarskiptafyrirtækjum aðgang að sjónvarpsútsendingum, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 45. gr., og hins vegar að ákvæði um flutningsskyldu, þ.e. skyldu fjarskiptafyrirtækja sem ráða yfir sjónvarpsdreifikerfi til að flytja sjónvarpsútsendingar yfir þau kerfi.

Engin vafi leikur á því að útsendingar frá Enska boltanum og annað efni í línulegri dagskrá Sýnar telst sjónvarpsútsending í skilningi fjölmiðlalaga. Því er torskilið að það komi forsvarsmönnum Sýnar á óvart að Fjarskiptastofa hafi skýrt það lagaákvæði sem um er deilt í málinu í samræmi við orðanna hljóðan og haldið skyldu um að heimila öðrum fjarskiptafyrirtækjum að dreifa sjónvarpsútsendingum yfir sjónvarpsdreifikerfi sín að félaginu.

Ummæli um að niðurstaðan sé alvarleg fyrir heilbrigða samkeppni og hagsmuni neytenda til lengri tíma nær ekki landi þegar horft er til þess að markmið með setningu framangreindra lagaákvæða var fyrst og fremst að verja samkeppni svo fyrirtæki sem ráða yfir fjölmiðlum og fjarskiptum næðu ekki að raska samkeppni með því að komast yfir eftirsóknarvert efni og hleypa öðrum ekki að því. Það má velta því upp hvort slík lagasetning sé skynsamleg, eðlileg og sanngjörn en vart getur það verið að stjórnendur Sýnar hafi talið að hin ótvíræða lagaskylda næði ekki til félagsins.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×