Skoðun

Rétt klukka síðan 1968: Höldum í síðdegisbirtuna

Erlendur S. Þorsteinsson skrifar

Á hverju hausti erum við Íslendingar minntir á að við búum upp við Norðurheimskautið. Laufin falla, það snjóar (stundum hressilega), og daginn tekur að stytta; en ég er þá alltaf þakklátur fyrir framsýni þeirra sem árið 1968 ákváðu að festa tíma á Íslandi við GMT allt árið um kring til að hámarka birtu síðdegis.

Það fyrirkomulag verður vissulega til þess að sól er hæst á lofti um kl. 13:30 á höfuðborgarsvæðinu, hvar flestir Íslendingar búa, en yfir hásumarið og háveturinn skiptir það litlu sem engu máli því yfir sumarið er hvort eð er alltaf bjart og yfir veturinn er alltaf dimmt. Vor og haust hefur þetta þau áhrif að það er lengur dimmt að morgni en í staðinn er dásamlegt að geta notað seinnipart hvers dags til útiveru í birtu. Fæst okkar eru svo öguð að geta nýtt sér birtu að morgni en að fara út að ganga, hjóla eða synda seinnipartinn er þeim mun algengara.

Margir finna fyrir áhrifum þess að erfiðara er að vakna að morgni í myrkri en það má að einhverju leyti draga úr áhrifum þess með því að nota snjallljós eða birtustigsvekjaraklukkur, sem auka birtu í svefnherbergi smátt og smátt áður en þær hringja. Í svefnherberginu má auðveldlega nýta sér tæknina en erfiðara er að lýsa allt umhverfið fyrir útiveru seinnipartinn.

Árin 2018-2020 var það skoðað ítarlega að breyta klukkunni á Íslandi enniðurstaðan varð sú að hafna breytingartillögunni: „Vegur þar þyngst að neikvæð áhrif fækkunar birtustunda á vökutíma og skerðingar birtustunda í lok dags sem dregið gætu úr útivist og hreyfingu eru ekki nægilega vel þekkt, en birtustundum hefði fækkað um 13% á ársgrundvelli með breytingunni.“

Ekkert hefur breyst síðan þá til að hafa áhrif á þá skýru niðurstöðu.

Höfundur er áhugamaður um rímfræði (tímareikning) og doktor í stærðfræði.




Skoðun

Sjá meira


×