Skoðun

Vegið að heil­brigðri sam­keppni

Herdís Dröfn Fjeldsted skrifar

Eins og flestir vita er Enski boltinn kominn heim. Sýn hefur tryggt sér sýningarréttinn að þessu vinsæla sjónvarpsefni næstu þrjú árin. Við hjá Sýn leggjum mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum upp á mikinn fjölda beinna útsendinga og vandaða og skemmtilega umfjöllun um allt sem tengist Enska boltanum. Þetta er stefna sem Sýn Sport og forverar þess hafa ávallt haft að leiðarljósi við töku nýrra sýningarrétta í íþróttum. Í samstarfi við hagaðila hefur Sýn Sport ítrekað skapað vandaða umgjörð og áhugaverða umfjöllun sem vakið hefur athygli, aukið áhuga almennings og jafnvel haft jákvæð áhrif á þáttöku og iðkendafjölda í viðkomandi íþrótt.

Markaðsráðandi aðili á fjarskiptamarkaði hefur engu að síður auglýst Enska boltann hjá sér, sem hefur vakið furðu magra. Þetta má rekja til ákvörðunar Fjarskiptastofu sem féllst á kröfu markaðsráðandi aðila um að fá að flytja dagskrárefni Sýnar yfir sitt lokaða myndlyklakerfi (IPTV). Með þeirri ákvörðun var Sýn gert að veita aðgang að allri línulegri dagskrá, þar á meðal Sýn Sport.

Niðurstaðan er sú að fyrirtæki sem fjárfestir í réttindum og framleiðslu verður að deila því með keppinautum sem bera hvorki áhættu né kostnað, en greiða eingöngu heildsöluverð fyrir hverja sölu. Upplýsingar um raunverulegar sölutölur eru jafnframt takmarkaðar og einungis aðgengilegar í gegnum samkeppnisaðila sem er í markaðsráðandi stöðu.

Ein röksemdin fyrir niðurstöðu Fjarskiptastofu er að annað myndi setja neytendur í stöðu þar sem val á dreifiveitu gæti takmarkað aðgang þeirra að Enska boltanum. Fjarskiptastofa lítur ekki til þess að smáforrit („app“) Sýnar er aðgengilegt öllum, að kostnaðarlausu. Þar er hægt að nálgast Enska boltann gegn greiðslu og engar kvaðir um að viðkomandi þurfi að vera með internettengingu hjá Sýn eða aðra fjarskiptaþjónustu. Þar sem um 99% landsmanna hafa internetaðgang og eru vön að nýta sambærileg forrit, til dæmis Netflix sem um 80% heimila á Íslandi hafa aðgang að, verður erfitt að færa rök fyrir því að app Sýnar takmarki aðgengi.

Þá virðist Fjarskiptastofa hafa sérstakar áhyggjur af fólki í eldri aldurshópum og telur að það sé vandkvæðum bundið að þau noti app til að horfa á sjónvarp. Engu að síður er eldri borgurum þessa lands gert að hlaða niður appi til að eiga í samskiptum við opinbera aðila (Island.is) og eiga í bankaviðskiptum svo eitthvað sé nefnt. Niðurstaðan verður svo enn fjarstæðukenndari þegar horft er til þess að markmið með störfum Fjarskiptastofu er að stuðla að nýsköpun og þróun markaðarins í því skyni að hámarka jákvæð áhrif tækninnar á samkeppnisstöðu og framþróun samfélagsins.

Neytendur eru fullfærir um að velja sjálfir við hverja þeir eiga í viðskiptum, kynna sér framboðið og meta hvað hentar þeim og þeirra heimilum best. Slíkar ákvarðanir þurfum við öll að taka daglega – þannig virkar lífið og markaðurinn. Við vitum að við fáum ekki allt alls staðar. Við vitum t.d. að við sækjum ekki vörur frá Krónunni í verslun Bónus, eða pizzu frá Dominos hjá KFC. Af hverju ættum við að geta nálgast Enska boltann hjá Símanum?

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst gagnrýnin á niðurstöðu Fjarskiptastofu um ákvörðun sem er alvarleg niðurstaða fyrir íslenskt atvinnulíf, heilbrigða samkeppni og hagsmuni neytenda til lengri tíma.

Höfundur er forstjóri Sýnar.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×