Skoðun

„Lánin hækka – fram­tíðin minnkar“

Sveinn Óskar Sigurðsson skrifar

Ríkisstjórnin kynnti í gærdag húsnæðispakka sem á að leysa vandann á húsnæðismarkaði. En þegar betur er að gáð blasir við að verið er að setja plástur á sár sem krefst skurðaðgerðar. Eru engin áform um niðurskurð ríkisútgjalda til að slá á þensluna, vextina?

Með því að auka við hlutdeildarlán, rýmka úttekt séreignarsparnaðar og bæta við nýjum hvötum til lánveitinga, er í raun verið að bæta olíu á eldinn. Þessi úrræði hækka kaupmátt fólks til skamms tíma en þau halda verðinu uppi á markaði sem er þegar ósjálfbær. Þetta eru eftirspurnarhvatar, ekki framboðslausnir. Uppbygging um 4000 íbúða í Úlfarsárdal er ekki að mæta eftirspurninni í dag.

Við vitum hvað þarf. Það þarf að byggja meira, fyrr og ódýrara. Það þarf að gera skipulagsferli einfaldara, samræma reglur og tryggja að innviðir fylgi. Það er framboð sem jafnar markaðinn, ekki fleiri óhagkvæm lán. Mun útdeiling verkefna til COWI og annarra ráðgjafa utanhúss frá sveitastjórnum virkilega einfalda ferlið?

Það er einnig spurning um réttlæti milli kynslóða. Yngra fólk á að nota framtíðarsparnað sinn til að kaupa húsnæði á toppverði á meðan eldri kynslóðin hefur þegar notið áratuga verðhækkana. Þetta er ekki jafnræði, þetta er tilfærsla úr framtíðinni til fortíðar.

Við þurfum ríkisstjórn sem þorir að skera niður eigin yfirbyggingu, skera báknið burt.

Við þurfum húsnæðisstefnu sem byggir upp, ekki stefnu sem blæs upp.

Við þurfum stefnu sem tryggir lífeyri framtíðarinnar, ekki stefnu sem eyðir honum í dag.

Og við þurfum að hugsa húsnæðismál sem varanleg efnahagsmál, ekki sem skammtíma kosningamál.

Höfundur er oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ.




Skoðun

Sjá meira


×