Skoðun

Sjálfbærni með í för – Vega­gerðin stígur skref í átt að loftslagsvænni fram­kvæmdum

Hólmfríður Bjarnadóttir skrifar

Sjálfbærni varð ein af meginþáttum í nýrri stefnu Vegagerðarinnar 2024-2028 undir yfirskriftinni Sjálfbærni með í för. Í vor leit síðan fyrsta sjálfbærnistefna Vegagerðarinnar dagsins ljós en samkvæmt henni er unnið að ábyrgri nýtingu fjármuna og náttúruauðlinda og að dregið verði úr kolefnisspori framkvæmda, án þess þó að skerða hlutverk stofnunarinnar, sem er að tryggja öruggt og gott aðgengi um landið fyrir öll.

Stefnunni fylgir ítarleg aðgerðaáætlun með 20 mælanlegum markmiðum og tímasettum aðgerðum. Fjallað verður um tvö lykilverkefni á morgunfundi Vegagerðarinnar föstudaginn 31. október þar sem sjónum verður beint að þeirri vegferð sem Vegagerðin hefur verið á síðasta árið.

Kolefnisreiknirinn LOKI var þróaður til að meta kolefnisspor allra framkvæmda og til að geta með markvissum hætti farið í aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hin stóra breytingin eru auknar loftslagskröfur í útboðum Vegagerðarinnar. Breytingarnar miða að því að uppfylla kröfur um samdrátt í kolefnisspori framkvæmda, viðhaldi og rekstri innviða Vegagerðarinnar. Framkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins er kjarnastarfsemi Vegagerðarinnar og einnig sá hluti sem hefur stærsta vist- eða kolefnisspor. Mikilvægt er því að skapa framtíðarsýn og ná yfir þau tækifæri sem eru þar til að draga úr vistspori.

Breytingar verða unnar í skrefum yfir næstu 18 mánuði og verða innleiddar í áföngum. Helstu breytingar sem verða á útboðskröfum í vetur eru meðal annars:

·Ríkari krafa verður um tækjalista og áætlaða tækjanotkun strax þegar skilað er inn tilboði vegna útboðs Vegagerðarinnar og kallað verður eftir tiltækum umhverfisyfirlýsingum (EPD) vegna vöru eða hráefna sem notuð verða í verki fyrir Vegagerðina.

·Gerð verður skýrari krafa um skil á gögnum um eldsneytisnotkun á verktíma ásamt öðrum magntölum.

·Uppfærð sniðmát fyrir tækjalista verða hluti af útboðsgögnum Vegagerðarinnar til að auðvelda þessa breytingu.

·Bætt verður við þessar kröfur á næstu árum með það að markmiði að draga úr kolefnisspori framkvæmdar eins og kostur er.

Morgunfundur Vegagerðarinnar verður haldinn í húsnæði Vegagerðarinnar í Suðurhrauni 3 í Garðabæ. Öll eru velkomin á staðinn en einnig er hægt að fylgjast með erindum í beinu streymi. Nánari upplýsingar er að finna á vef Vegagerðarinnar.

Höfundur er forstöðumaður sjálfbærnideildar Vegagerðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Hamona

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjá meira


×