Upp­gjörið: ÍA - Álfta­nes 76-74 | ÍA kvaddi Vestur­götuna með stæl

Sverrir Mar Smárason skrifar
9548EC7E5A85B4E2997C8561FD026EC5A4EC493D702B094A8D37E1C194A9B1B8_713x0

Nýliðar ÍA gerðu sér lítið fyrir og skelltu Álftnesingum, 76-74, í Bónus deild karla í kvöld.

Það voru Álftnesingar sem byrjuðu betur, unnu uppkastið og tóku strax forystu í leiknum. Um miðjan fyrsta leikhluta munaði mest 9 stigum á liðunum en eftir að Kjartan Atli, þjálfari Álftaness, hafði tekið leikhlé kviknaði neisti í heimamönnum sem náðu góðu áhlaupi. Eftir að ÍA hafði náð að minnka muninn í eitt stig endaði fyrsti leikhluti 17-21, Álftanesi í vil.

Það má segja sömu sögu um annan leikhluta þar sem gestirnir komu inn í hann á miklu flugi og náðu mest 13 stiga forystu áður en heimamenn tóku við sér á ný. Dúi Þór sá svo til þess að Álftanes færi með forystu inn í hálfleikinn með því að skora tvær síðustu körfur annars leikhluta. Hálfleikstölur 31-38.

Skagamenn mættu grimmir út í síðari hálfleik og ætluðu ekki að láta valta yfir sig í lokaleiknum á Vesturgötu. Þegar þriðji leikhluti var hálfnaður var staðan orðin 44-41, ÍA í vil.

Þá tók Ade Murkay, leikmaður Álftaness, öll völd á leiknum. Skoraði sjö stig í röð og lét stuðningsmenn Skagamanna aðeins finna fyrir sér í leiðinni. Stuðningsmenn liðanna fjölmenntu í stúkuna og kölluðust á til skiptis. Undir lok þriðja leikhluta voru það heimamenn sem leiddu, 54-52, eftir frábæran leikhluta þar sem þeir skoruðu tíu stigum meira en gestirnir.

Fjórði og síðasti leikhlutinn fór af stað sem eins konar hlaupaleikur þar sem bæði lið keyrðu á körfuna til skiptis. Skagamenn héldu forystunni þangað til að Álftnesingar jöfnuðu metin þegar þrjár mínútur voru eftir, 68-68.

Eftir að bæði lið voru komin með skotrétt náði ÍA að nýta vítaskotin vel en úrslitin réðust þó ekki fyrr en á síðustu sekúndu leiksins. Tvö stig skildu liðin að og Ade Murkay fékk það verkefni að eyða tíma af klukkunni og freista þess að jafna eða vinna leikinn. Honum tókst ekki að setja skotið niður og Skagamenn unnu að lokum sigur, 76-74, eftir frábæran körfuboltaleik.

Atvik leiksins

Það er í raun bara lokaskotið hjá Ade Murkey. Hafði fyrr í leiknum æst vel í stuðningsmönnum ÍA og nokkrum sinnum hafði hann sömuleiðis svarað vel fyrir sig með góðum körfum. Lokakarfan fór ekki niður og Álftanes tapaði leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Gojko Zudzum heldur áfram að skara fram úr í liði ÍA. 25-7-1 lína í dag. 24 framlagsstig.

Ade Murkay var atkvæðamestur í liði Álftaness með 25-5-2. Hann var hins vegar með 0 þrista í 9 tilraunum og í raun er þriggja stiga skotnýting Álftaness skúrkur leiksins því þeir hittu aðeins úr 12 prósent af tilraunum sínum.

Dómarar

Bjarki Þór, Gunnlaugur og Dominik dæmdu þennan leik bara vel. Ekkert vesen á þeim.

Stemning og umgjörð

Frábær stemning á Skaganum og umgjörðin góð í gamla húsinu á Vesturgötu. Vængir í boði og allir í geggjuðum gír. Þetta var samkvæmt heimamönnum síðasti leikurinn í þessu húsi því næsti heimaleikur eftir tvær vikur á að fara fram í nýju íþróttahúsi við Jaðarsbakka. Þetta er hins vegar þriðji eða fjórði kveðjuleikur Vesturgötunnar svo efasemdir eru uppi en nýja húsið verður vígt og opnað á morgun svo þetta hlýtur að vera síðasti leikurinn hér.

Kjartan Atli: Við þurfum bara að halda áfram að skjóta

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var ekki sáttur við leik sinna manna í kvöld.

„Við áttum ekki góðan leik í kvöld. Það er bara þannig og Skaginn átti þennan sigur skilinn. Þeir gerðu mjög vel í kvöld,“ sagði Kjartan Atli svekktur.

„Það þarf að kíkja á það hvernig leikurinn spilaðist. Í augnablikinu þá var það bara orkan í húsinu og orkan í ÍA-liðinu sem var mikill áhrifavaldur. Þeir gera bara vel í að koma sér inn í leikinn. Við þurfum bara að fara í gegnum það hvað það var sem klikkaði hjá okkur.“

Í síðari hálfleik slaknaði á vörn gestanna og í leiknum hittu þeir aðeins úr 12 prósent þriggja stiga skota.

„Við þurfum bara að halda áfram að skjóta, það er það eina sem þú getur gert. Lögmál meðaltalsins mun alltaf leiðrétta svona hluti. Við áttum bara ekki góðan skotleik og þeir veðjuðu á það. Auðvitað var þetta ekki nógu góð nýting,“ sagði þjálfari Álftaness.

„Það er bara æðislegt að kveðja húsið svona“

Skagamenn unnu frábæran sigur í Bónus deild karla gegn Álftanesi í kvöld, 76-74. Mikil spenna var undir lok leiks en Óskar Þór, þjálfari ÍA, var að vonum gríðarlega ánægður í leikslok.

„Mér líður bara ógeðslega vel. Tíu sinnum betur en eftir Njarðvíkurleikinn sem var svipuð spenna. Æðislegt að klára þetta,“ sagði Óskar Þór, þjálfari Skagamanna.

Skagamenn byrjuðu fyrstu tvo leikhluta leiksins illa en í bæði skiptin náðu þeir að snúa taflinu við. Þeir komu svo á flugi út í síðari hálfleikinn og litu ekki til baka eftir það.

„Við byrjuðum bara að smella aðeins betur sóknarlega. Mér fannst við bara ekki hafa verið að hreyfa boltann nægilega vel. Þeir eru með geggjað varnarlið og ef við ætlum að reyna að sækja á þá einn á einn of mikið þá er það bara erfitt. Um leið og við fengum flæði í þá og réðumst á næsta mann þá fór þetta að ganga betur,“ sagði Óskar.

Skagamenn fengu nú nýverið nýjan serbneskan leikmann til liðs við sig. Sá heitir Ilija Đoković og Skagamenn eru spenntir fyrir honum. Þeir eru þó nú þegar með fjóra erlenda leikmenn sem þýðir að einn þeirra þurfi að víkja.

„Við ætlum að halda fimm manna æfingahóp allavega eins og er en svo bara tökum við stöðuna í framhaldinu. Okkur fannst vanta aðeins betri leikstjórn í leikina. Við erum með ellefu tapaða bolta í hálfleik. Það mun vonandi hjálpa okkur mikið. Hann mætti í gær, búinn að taka eina æfingu með liðinu og það eru mestu lætin í honum á bekknum. Ég er ánægður með hann hingað til en svo þurfum við bara að sjá hvernig hann er inná vellinum,“ sagði Óskar Þór um nýja manninn.

Skagamenn kveðja íþróttahúsið á Vesturgötu eftir leikinn í kvöld og flytja loksins í nýju AvAir höllina við Jaðarsbakka. Húsið hefur lengi spilað stórt hlutverk í körfuboltanum á Akranesi.

„Það er bara æðislegt að kveðja húsið svona. Mikið hrós á okkar fólk bara enn og aftur. Það er geggjuð stemning hérna og ólýsanlegt að spila fyrir þetta fólk,“ sagði þjálfari Skagamanna að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira