Upp­gjörið: N-Írland - Ís­land 0-2 | Varnar­jaxlarnir tryggðu sigur

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Glódís Perla fór fyrir sínu liði í kvöld.
Glódís Perla fór fyrir sínu liði í kvöld. vísir/getty

Ísland lagði Norður-Írland, 0-2, ytra í kvöld. Þetta var fyrri leikur liðanna í umspili um að halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar. Seinni leikurinn fer fram á Laugardalsvelli næsta þriðjudag.

Sigur í einvíginu tryggir Íslandi áframhaldandi sæti í A-deild og eykur möguleika liðsins á sæti á HM í Brasilíu árið 2027.

Það ríkti ákveðið jafnræði með liðunum fyrstu mínútur leiksins en eftir það var Ísland töluvert betri aðilinn og miklu meira með boltann án þess þó að skapa sér einhver dauðafæri en þær norðurírsku vörðust ágætlega með fimm manna varnarlínu og Jacqueline Burns í markinu þar fyrir aftan.

Það kom að því að Ísland braut ísinn og þar var að verki fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir á 30. mínútu með góðum skalla úr teignum eftir frábæra aukaspyrnu Karólínar Leu frá vinstri.

N-Írland komst tæplega yfir miðju í fyrri hálfleik, fyrir utan eins og eina hornspyrnu, þrátt fyrir að leika með vindinn í bakið.

Mörkin hefðu þó klárlega getað verið fleiri en Sveindís Jane átti meðal annars fast skot rétt fyrir hálfleik sem var varið í slána. Staðan var 1-0, Íslandi í vil, þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik.

Ingibjörg fylgdi fordæmi Glódísar

Ísland lék með vindi í síðari hálfleik en það blés töluvert á vellinum í kvöld. Það virtist hins vegar ekki breyta of miklu því sama leikmynd var uppi á teningnum, þ.e. Ísland nær einokaði boltann en á sama tíma tókst ekki að skapa sér nægilega mikið úr opnum leik á meðan Norður-Írland varðist neðarlega á mörgum mönnum.

Það dró til tíðinda á 75. mínútu þegar Karólína Lea tók hornspyrnu og skrúfaði boltann inn að marki hvar Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörðurinn sterki, skallaði boltann inn. Bæði mörkin eftir fast leikatriði.

Þrátt fyrir töluverða yfirburði þá urðu mörkin þó ekki fleiri og niðurstaðan er sú að Ísland tekur með sér tveggja marka forustu inn í seinni leikinn sem verður spilaður á Laugardalsvelli þriðjudaginn næstkomandi.

Atvik leiksins

Fyrsta markið hjá Íslandi brýtur ísinn. Það var mikilvægt að fara inn í hálfleikinn með mark og það þurfti fast leikatriði til, þ.e. gullskalla frá Glódísi Perlu og frábæra aukaspyrnu frá Karólínu Leu.

Stjörnur og skúrkar

Karólína Lea, Glódís Perla og Ingibjörg fá prik fyrir mörkin og stoðsendingarnar. Það er það sem raunverulega ræður úrslitunum á endanum. Hjá Norður-Írlandi var Jacqueline Burns í markinu frábær og er í raun maður leiksins. Hvað varðar skúrkana þá má fella sóknarmenn Íslands undir þann flokk fyrir að nýta ekki færin sín en þessi leikur átti hæglega að geta unnist með fimm mörkum eða svo.

Dómarinn

Fín frammistaða hjá dómaranum og hans teymi. Lítið var um vafasöm atvik í rauninni en kannski helst að leikurinn fékk ekki alveg að flæða nægilega vel stundum. Einkunn 7,5.

Stemning og umgjörð

Stemningin var prýðileg. Uppgefnar áhorfendatölur voru 2.184 og það var góðmennt í stúkunni. Veðrið var kunnuglegt, þ.e. dálítil væta og töluverður vindur. Umgjörðin var hins vegar ekki alveg sæmandi A-landsliði, þ.e. það voru engir varamannabekkir til staðar og þá virtist grasið ekki vera úr efstu hillu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira