Enski boltinn

„Þetta hafa verið erfiðir tímar fyrir okkur alla“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arne Slot stendur þétt við bakið á Mohamed Salah.
Arne Slot stendur þétt við bakið á Mohamed Salah. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Arne Slot kom Mohamed Salah til varna á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool gegn Brentford á morgun. Egyptinn hefur ekki spilað vel að undanförnu og virtist pirraður á bekkjarsetu í síðasta leik.

Salah hefur verið fastamaður í liði Liverpool undanfarin ár og er iðulega alltaf í byrjunarliðinu þegar hann er heill heilsu, en byrjaði á bekknum og spilaði aðeins rúmar fimmtán mínútur í 5-1 sigri Liverpool á útivelli gegn Eintracht Frankfurt á miðvikudag.

Salah brást illa við og var sjáanlega pirraður þegar hann strunsaði inn í klefa eftir leik, þrátt fyrir að Liverpool hafi fagnað fyrsta sigrinum eftir fjóra tapleiki í röð.

„Þetta hafa verið erfiðir tímar fyrir okkur alla. Það er enginn vanur því að tapa“ sagði Slot.

Salah hefur aðeins skorað þrjú mörk í ellefu leikjum í öllum keppnum og farið illa með mörg góð færi.

„Það síðasta sem ég hef áhyggjur af er að Mo fari ekki að skora aftur.

Allir leikmenn klúðra færum og hann er bara mannlegur. Við erum ekki vanir því að sjá hann klúðra færum en það er aðalatriðið, við erum vanir því að sjá Mo skora mörk, hann mun finna taktinn aftur og byrja að skora fyrir okkur á næstu vikum eða mánuðum, eins og hann hefur gert allan sinn feril hér.

Breytingar á liðinu þýða líka að það þurfa allir að aðlagast“ sagði Slot.

Isak og Gravenberch?

Slot tjáði sig einnig um stöðuna á leikmönnum liðsins sem hafa verið að glíma við meiðsli. Jeremie Frimpong og Alexander Isak fóru báðir meiddir af velli í síðasta leik gegn Eintracht Frankfurt, sem Ryan Gravenberch missti af.

„Jeremie Frimpong er ekki á góðum stað, hann verður ekki með á morgun eða í næstu viku. Meiðsli aftan í læri taka tíma.“

„Alexander Isak er ekki svo slæmur en hann er spurningamerki fyrir helgina, við munum sjá til hvort hann geti verið með og það sama gildir um Ryan Gravenberch.“

„Alisson Becker verður ekki heldur í hópnum“ sagði Slot um markmanninn sem hefur verið meiddur síðan í landsleikjahlénu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×