Fótbolti

Guð­rún lík­legust til að koma til bjargar í eyði­mörk

Sindri Sverrisson skrifar
Það var létt yfir stelpunum okkar á æfingu á Norður-Írlandi. Fyrri leikur einvígisins er klukkan 18 á morgun.
Það var létt yfir stelpunum okkar á æfingu á Norður-Írlandi. Fyrri leikur einvígisins er klukkan 18 á morgun. Samsett/KSÍ

Guðrún Arnardóttir og Fanney Inga Birkisdóttir þykja líklegastar til að koma til bjargar ef landsliðskonur Íslands í fótbolta myndu enda í eyðimörk.

Ísland á fyrir höndum gríðarlega mikilvæga leiki við Norður-Írland, í Ballymena á morgun og á Laugardalsvelli næsta þriðjudag. Leikirnir ráða því hvort Ísland verður áfram í A-deild eða fellur í B-deild, fyrir næsta ár þegar leikið verður um sæti á HM. Leiðin á HM yrði mun greiðari í gegnum A-deildina.

Þó að öllum sé ljóst hve mikilvægir þessir fyrstu leikir eftir EM í sumar eru, þá vita stelpurnar okkar að það er líka mikilvægt að hafa gaman af lífinu. Á Instagram-síðu KSÍ er skemmtilegt myndband þar sem stelpurnar svara því hvaða liðsfélaga þær myndu vilja hafa með sér í eyðimörk.

Katla Tryggvadóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir voru allar sammála um að miðvörðurinn áreiðanlegi Guðrún Arnardóttir væri besti kostur. Hún myndi bjarga málum:

„Ég myndi taka Guðrúnu, bara svo að ég myndi lifa af. Ég treysti ekki neinum öðrum,“ sagði Ingibjörg létt.

Hildur Antonsdóttir og Fanney Inga markvörður voru einnig nefndar oftar en einu sinni og Fanney Inga hafði sömuleiðis trú á sjálfri sér:

„Ég myndi taka Kötlu með mér, bara fyrir good vibes. Svo held ég að ég myndi koma okkur þaðan,“ sagði hún og glotti.

Fyrri leikur Norður-Írlands og Íslands hefst klukkan 18 á morgun og seinni leikurinn er á Laugardalsvelli á þriðjudag, einnig klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×