Viðskipti erlent

Stjórn Warner Bros. segir fé­lagið til sölu

Samúel Karl Ólason skrifar
Unnið er að því að skipta Warner Bros. Discovery upp í tvö félög en stjórnin segist tilbúin til að selja félagið í heild. Nokkrir aðilar hafi lýst yfir áhuga á slíkum kaupum.
Unnið er að því að skipta Warner Bros. Discovery upp í tvö félög en stjórnin segist tilbúin til að selja félagið í heild. Nokkrir aðilar hafi lýst yfir áhuga á slíkum kaupum. EPA/CHRISTOPH DERNBACH

Forsvarsmenn Warner Bros. Discovery segjast nú tilbúnir til að selja fyrirtækið í heild sinni. Áður höfðu þeir stefnt að því að skipta fyrirtækinu í tvennt en eftir að hafa fengið veður af áhugasömum kaupendum hafa þeir skipt um skoðun. Hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað töluvert í virði eftir tilkynninguna í dag.

WBD rekur sjónvarpsstöðvar eins og CNN, TNT HBO og fleiri auk þess sem það rekur kvikmyndatökuvör og streymisveituna HBO Max, svo eitthvað sé nefnt.

Meðal þeirra fyrirtækja sem eru sögð hafa áhuga á WBD eru Paramount Skydance, Netflix og Comcast, samkvæmt heimildum CNBC.

Í síðustu viku bárust fregnir af því að stjórnendur Paramount Skydance hafi reynt að sameina félagið við WBD en án árangurs. Sá samruni myndi skapa eitt stærsta og öflugasta skemmtanaafurðafyrirtæki heims.

Sjá einnig: Paramount ber víurnar í Warner Bros

CNBC hefur eftir heimildarmönnum sínum að forsvarsmenn WBD hafi ákveðið að tilkynna opinberlega að þeir hefðu áhuga á því að selja fyrirtækið og að áhugi á kaupum komi úr nokkrum áttum, eftir að þeir höfnuðu nokkrum tilboðum frá Paramount.

Eitt tilboð sem barst frá öðrum aðila var hærra en hæsta tilboð Paramount og vonast stjórnendur WBD að forsvarsmenn Paramount hækki tilboðið.

Eftir að Warner Bros. og Discovery Inc. sameinuðust árið 2022 hefur fyrirtækið verið í kröggum, vegna umfangsmikilla skulda vegna sameiningarinnar. Verulega hefur verið dregið úr kostnaði og hjá félaginu og hefur tekist að lækka skuldir töluvert. Fjárfestar eru þó sagðir hafa áhyggjur af stöðunni vegna slæmrar stöðu sumra sjónvarpsstöðva félagsins.

Eins og áður segir stóð til að skipta félaginu upp milli kvikmyndavera þess og streymisveitu annars vegar og sjónvarpsstöðva hins vegar. Þar yrði markmiðið, samkvæmt frétt New York Times, að skilja arðvæna hluta félagsins frá stöðvum eins og TNT og CNN sem erfitt er að reka með hagnaði þessa dagana.

Í yfirlýsingu frá stjórn WBD segir að þessi vinna sé enn í gangi en til greina komi að selja félagið í heild sinni til þeirra sem hafa áhuga. Kaupi enginn félagið í heild stendur til að ljúka aðskilnaðinum um mitt næsta ár.

Að öðru leyti segir stjórnin að enginn tímarammi um mögulega sölu liggi fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×