Neytendur

Engar reglur um merkingar á bíla­stæðum sem rukkað er fyrir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórunn Anna segir þörf á regluverki utan um gjaldtöku á bílastæðum.
Þórunn Anna segir þörf á regluverki utan um gjaldtöku á bílastæðum. Vísir/Sara

Bílastæðamál eru meðal fyrirferðarmestu málaflokkanna sem rata inn á borð Neytendastofu. Forstjóri stofnunarinnar teldi það til bóta ef skýrar reglur væru til um gjaldskyld stæði.

Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, ræddi málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar sagði hún margt hafa breyst þegar kemur að bílastæðamálum, með tilkomu tækninýjunga.

„Tæknin náttúrulega á að gera okkur auðveldara fyrir, en flækist líka kannski fyrir. Það þarf að aðlaga kröfurnar að þeim,“ sagði Þórunn. 

Neytendastofa birti í sumar fimm ákvarðanir sínar sem beindust að fyrirtækum sem sýsla með gjaldtöku bílastæða. Með þeim segir Þórunn að markmiðið hafi verið að fá fyrirtækin til að skýra merkingar sínar og sjá til þess að ökumenn áttuðu sig á því að þeir væru að leggja í gjaldskyld stæði. Neytendur þurfi bæði að vita hvort þeir eigi að greiða, og hversu mikið.

„Það eru ýmsar leiðir og ýmislegt sem þarf að skoða í þessu, og er verið að skoða líka í löndunum í kringum okkur.“

Metið eftir hverju atviki fyrir sig

Þórunn segir að Neytendastofa fái fjölmargar ábendingar um brotalamir þegar komi að bílastæðamálum. Þær séu hafðar til hliðsjónar þegar ákvarðanir séu teknar.

„Það eru engar sérstakar reglur sem gilda um þetta. Það eru engar reglur sem segja: Þetta á að vera svona, svona á þetta að vera merkt, þetta á að koma fram, og þess háttar. Þannig að við þurftum svolítið að skoða þetta út frá hverju bílastæði fyrir sig.“

Samræmingar sé þörf

Þórunn segist telja að mjög væri til bóta ef slíkar reglur væru til, sem myndu skýra rammann sem stofnunin geti unnið eftir.

„Út af því að það eru ekki til reglur þurftum við að meta þetta út frá hverju bílastæði fyrir sig. Vegna þess að á litlu bílastæði er kannski nóg að hafa svona mörg skilti og þau staðsett á þessum stöðum, en annars staðar, þar sem eru kannski fleiri en einn aðili [sem innheimta gjöld] og fleira, þá þurfi merkingarnar að vera með öðrum hætti,“ segir Þórunn.

Viðtalið við Þórunni má heyra í heild ofar í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×