Innlent

Ættum að fara var­lega í orku­drykki með sætu­efnum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Birna G. Ásbjörnsdóttir er doktor í heilbrigðisvísindum.
Birna G. Ásbjörnsdóttir er doktor í heilbrigðisvísindum. Vísir/Sigurjón

Orkudrykkjanotkun hefur tvöfaldast á fjórum árum. Doktor í heilbrigðisvísindum segir margt í drykkjunum sem ber að varast og að þeir séu sérlega hættulegir börnum.

Árið 2020 sögðust rúm sex prósent landsmanna drekka orkudrykk í það minnsta einu sinni á dag. Fjöldinn hefur aukist hægt og bítandi og í fyrra sögðust rúm tólf prósent gera það. Tvöföldun á fjórum árum. Neyslan er mest hjá konum á aldrinum átján til 34 ára en 29 prósent segjast drekka orkudrykki að minnsta kosti einu sinni á dag. Tölurnar eru svipaðar milli kynja en í hinum tveimur aldurshópunum sem Embætti landlæknis skiptir niðurstöðunum upp í má einnig sjá mikla aukningu milli ára.

Koffínneysla er ekki endilega slæm að sögn Birnu G. Ásbjörnsdóttur, doktors í heilbrigðisvísindum. Hins vegar verði að gæta hófs og börn yngri en átján ára ættu alls ekki að drekka orkudrykki.

„Ef við horfum á koffínið, þá getur það haft ágætis áhrif í litlum skömmtum. Vekur mann pínulítið, skerpir mann og jafnvel haft áhrif á meltingu sem er alveg plús. En í flestum tilvikum er fólk að drekka of mikið koffín, sérstaklega í þessum drykkjum sem geta verið með hátt magn af koffínu. Of mikil neysla á koffíni er klárlega ekki góð fyrir líkamann eða taugakerfið. Það getur valdið svefntruflunum, streitu og eykur mögulega líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum,“ segir Birna. 

Margir orkudrykkja eru auglýstir sem sykurlausir eða með örfáum kaloríum. Í þeim er þó oft að finna gervisætu eða náttúruleg sætuefni sem eru ekki sérlega holl.

„Öll þessi efni hafa á einhvern hátt áhrif á meltingarveg og þarmaflóru. Og við eigum eftir að rannsaka þetta heilmikið. Við vitum ekkert alveg hver áhrifin eru og á meðan við vitum að það er einhver möguleiki á óæskilegum afleiðingum, þá er mín skoðun að við ættum að fara mjög varlega,“ segir Birna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×