Innlent

Björguðu ketti sem var fastur inni í Teslu

Agnar Már Másson skrifar
Frá björgunaraðgerð dagsins.
Frá björgunaraðgerð dagsins. Aðsend

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í dag tilkynning um kött sem var fastur inni í bíl á Seltjarnarnesi. Lögregla gaf kettinum harðfisk til að róa hann niður svo auðveldara væri að fjarlægja hann úr bifreiðinni.

Í dagbók lögreglu er málsatvikum lýst svo að lögregla hafi brugðist við tilkynningu um kött sem var fastur í bíl af tegundinni Teslu. Þegar lögregla kom á vettvang hafi eigandi bifreiðarinnar verið búinn að taka hægra framhjólið af bifreiðinni ásamt innra bretti.

„Heyra mátti mjálm koma úr bifreiðinni að framan verðu þar sem farangursrými bifreiðarinnar er,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfðborgarsvæðinu þar sem greint er frá verkefnum embættisins frá klukkan 5 og 17 í dag.

Kötturinn fékk harðfisk.Aðsend

Það segir að hlíf í farangursrými hafi verið fjarlægð svo að hægt væri að sjá köttinn.

„Kettinum var gefin harðfiskur [svo] og hjálpaði það til við að róa köttinn svo hægt væri að ná honum úr bifreiðinni,“ skrifar lögreglan en verkefnið heyrði undir lögreglustöð eitt sem sinnir verkefnum í miðborginni.

Óljóst sé hve lengi kötturinn hafi verið í bifreiðinni en farið var með hann á lögreglustöðina þar sem haft var upp á eigandanum og kettinum komið í réttar hendur. Atvikum er ekki lýst frekar í dagbók lögreglu.

Vegfarandi sem gerði lögregluviðvart um málið segir í samtali við Vísi að kötturinn hafi verið eins og „algjört grey“ þegar honum var bjargað en hann hafi greinilega verið fastur inni í bílnum í langan tíma.

Vegfarandinn segist hafa heyrt dularfullt mjálm á fimmtudag en aldrei komist að því hvaðan það kom, þrátt fyrir að hafa leitað víða. Það var ekki fyrr en um tveimur dögum síðar sem hann varð var við köttinn, sem var fastur inni í bílnum.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×