Innlent

Kjúklingaræktandi fær á baukinn en MAST líka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kjúklingarækt í Maryland í Bandaríkjunum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti.
Kjúklingarækt í Maryland í Bandaríkjunum. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar með beinum hætti. Getty

Atvinnuvegaráðuneytið hefur staðfest 150 þúsund króna sekt á kjúklingaræktanda vegna brots á lögum um velferð dýra. Ráðuneytið minnir Matvælastofnun um leið á að halda sig við staðreyndir málsins og halda ályktunum sem njóti ekki stuðnings gagna til hlés.

MAST sektaði ræktandann eftir að eftirlitsdýralæknir sá lifandi fugl með opið vængbrot hangandi á sláturlínu ræktandans. MAST vísaði til þess að um endurtekið brot væri að ræða. Þetta hefði gerst 42 sinnum árið 2022 og 2023. Fyrirtækið hafi í júlí 2022 verið varað við sektum yrði ekki brugðist við.

Ræktandinn, sem ekki er nefndur á nafn í úrskurðinum, mótmælti því að kjúklingurinn hefði verið sýnilega særður þegar hann var settur á upphengjur. Ráðuneytið vísaði til markmiða laga um velferð dýra, sérstaklega með tilliti til alifugla auk reglugerðar um vernd dýra við aflífun. Þá lægi fyrir að endurtekin brot gætu leitt til sekta.

Ráðuneytið sagði að gera yrði ráð fyrir því að starfsfólk ræktandans, sem væri vant því að meðhöndla dýrin, sæi þegar fugl með opið beinbrot væri hengdur á sláturlína. Ekki væri um innri meiðsli að ræða. Dýr með opið beinbrot yrði að teljast sýnilega sært. Um ítrekað brot væri að ræða miðað við fyrri skýrslur.

Að því sögðu taldi ráðuneytið að MAST hefði verið heimilt að sekta ræktandann. Ráðuneytið áréttaði þó við Matvælastofnun að byggja fullyrðingar sínar á fyrirliggjandi gögnum en ekki getgátum. Vísaði ráðuneytið þar til ákvörðunarbréfs stofnunarinnar í apríl 2024 þar sem stofnunin sagði að ætla yrði að fuglarnir væru mun fleiri.

„Rétt er að stofnunin haldi sig við staðreyndir sem byggja á gögnum málsins við töku ákvarðana og komi ekki á framfæri ályktunum sem ekki eru studdar slíkum gögnum,“ segir í niðurstöðu ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×