Uppgjörið: Stjarnan - KA 3-2 | Guðmundur Baldvin fullkomnaði endurkomu Stjörnunnar með flautumarki Hjörvar Ólafsson skrifar 31. ágúst 2025 19:02 Guðmundur Baldvin skoraði sigurmark Stjörnunnar í leiknum. Vísir/Diego Stjarnan kom til baka eftir að hafa lent 2-0 undir gegn KA og fór með 3-2 sigur af hólmi þegar liðin áttust við í 21. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld. Það var Guðmundur Baldvin Nökkvason sem tryggði Stjörnunni stigin þrjú með næstsíðasta sparki leiksins. Hér voru að leiða saman hesta tvo lið á góðu skriði en Stjarnan hafði fengið 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm deildarleikjum og KA 11 af síðustu 15 fyrir þennan leik. KA-menn voru ívíð sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Marcel Römer skallaði boltann í þverslána um miðjan fyrri hálfleikinn og skömmu síðar átti Guðjón Ernir Hrafnkelsson hnitmiðaðan skalla sem Árni Snær Ólafsson varði vel. Benedikt Warén var aðgangsharðastur í sóknarleik Stjörnunnar og komst næst því að skora fyrir heimamenn. Það var hins vegar Hallgrímur Mar Steingrímsson sem kom KA-mönnum yfir andartaki áður en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson blés til hálfleiks. Örvar Eggertsson felldi þá Hallgrím Mar innan vítateigs Stjörnunnar og Vilhjálmur Alvar benti á vítapunktinn. Hallgrímur Mar skoraði af feykilegu öryggi og staðan 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Birnir Snær Ingason tvöfaldaði svo forystu KA í upphafi seinni hálfleiks. Hans Viktor Guðmundsson átti þá flotta stungusendingu á Birni Snæ sem var einn á auðum sjó og setti boltann smekklega í fjærhornið. Á þessum tímapunkti var lítið í kortunum hjá Stjörnunni og allt útlit fyrir að KA-menn myndu taka með sér þrjú stig norður yfir heiðar. Benedikt Warén hóf hins vegar þegar hann minnkaði muninn í 2-1. Benedikt fékk þá snyrtilega stungusendingu frá Guðmundi Baldvin Nökkvasyni og kláraði færið með góðu skoti í fjærhornið. Benedikt Warén sótti svo á Guðjón Erni Hrafnkelsson um það bil mínútum fyrir leikslok. Guðjón Ernir felldi Benedikt og aftur benti Vilhjálmur Alvar réttilega á vítapunktinn. Andri Rúnar Bjarnanson jafnaði metin með vítaspyrnu sinni. Líkt og í vítaspyrnu Hallgríms Mars var spyrna Andra Rúnars föst og góð. Steinþór Mar Auðunsson fór eins og Árni Snær í rétt horn en boltinn endaði í netinu. Staðan jöfn og enn var nægur tími fyrir dramatík og sigurmark. Bæði lið fengu færi til þess að hrifsa til sín sigurinn en á lokaandartökum leiksins setti Guðmundur Baldvin boltann í netið með skoti af stuttu færi. Lokatölur 3-2 fyrir Stjörnuna sem hefur nú 37 stig og situr í þriðja sæti deildarinnar. KA situr aftur á móti með sárt ennið með sín 26 stig í sjötta sæti. Jökull Elísabetarson sá sína menn vinna góðan sigur í dag.Vísir/Ernir Jökull I. Elísabetarson: Skulduðum stuðningsmönnum að stíga upp „Við vorum mjög flatir í fyrri hálfleik og fórum vel og vandlega yfir hlutina í hálfleik. Þar ræddum við að við þyrftum að einfalda spilið okkar og vera með grunnatriði leiksins betur á hreinu. Eftir að við lentum 2-0 undir þá vaknaði liðið og við fórum að spila mun betur,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, um spilamennsku sinna manna. „Ef við viljum fá fleiri á völlinn þá þurfum við að spila af meiri orku en við gerðum í sigrinum á móti KR og betur heilt yfir í leiknum en við gerðum í þessum leik. Við sýndum þó klærnar í þessum leik og gáfum stuðningsmönnum okkar eitthvað fyrir peninginn síðasta hálftímann eða svo,“ sagði Jökull enn fremur. „Við fórum í heiðarlegan 4-4-2 með tvo stóra framherja hér undir lokin og sem betur fer gekk það upp og skilaði því sem við vildum. Aftur eins og eftir leikinn á móti KR þá kalla ég samt eftir betri og heilsteyptaði frammistöðu hjá okkur í næstu leikjum,“ sagði hann. „Við erum á góðu skriði samt og erum að ná í góð úrslit, það er mjög jákvætt. Ef við viljum samt gera okkur almennilega gildandi í toppbaráttunni, eins og stefnan er, þá verðum við að fara að ná upp betra jafnvægi í okkar leik,“ sagði Jökull um framhaldið. Hallgrímur Jónasson: Spiluðum vel í 70 mínútur en það er ekki nóg „Ég er virkilega ósáttur við að fá ekkert út úr þessum leik. Við spiluðum fanta vel fyrstu 70 mínútur leiksins og fengum færi og stöður til þess að bæta fleiri mörkum við og vera meira yfir. Það er sárt að fá ekkert út úr þessum leik eins og mér fannst við eiga skilið,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. „Síðustu 20 mínúturnar förum við allt of snemma að verja fenginn hlut og förum allt of neðarlega á völlinn. Þeir setja stóra og sterka leikmenn fram á völlinn og við náðum ekki að díla nógu vel við það. Við hefðum átt að gera mun betur á lokakafla leiksins,“ sagði Hallgrímur þar að auki. „Mig langar samt að benda á að mér finnst það til skammar hvernig Stjarnan tekur á móti liðum hér á Samsung-vellinum. Leikskýrslan kemur trekk í trekk 45 mínútum fyrir leik á meðan við skilum skýrslunni af okkur klukkutíma fyrir leik. Þeir vökva svo bara völlinn öðru megin og hundbleyta varamannaskýlið okkar. Mér finnst að KSÍ eigi að taka á þessu og þetta er Stjörnunnni ekki til sóma,“ sagði hann óánægður. „Að því sögðu þá bara tökum við það jákvæða úr þessum leik inn í hörkuleik á móti Vestra í næstu umferð deildarinnar. Við fáum nægan tíma til þess að safna orku fyrir þann leik. Við höfum verið á góðu róli undanfarið og liðið er á góðum stað. Þrátt fyrir þetta svekkjandi tap fyrir við brattir inn í leikinn við Vestra,“ sagði Hallgrímr um framhaldið. Hallgrímur Jónasson var sáttur við spilamennskuna en ósáttur við niðurstöðuna. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Jökull I. Elísabetarson gerði þrefalda skiptingu um miðbik seinni hálfleiks. Samúel Kári Friðjónsson, Örvar Logi Örvarsson og Baldur Logi Guðlaugsson komu þá inná. Steven Caulker fór í fremstu víglínu og Jökull stillti upp í strangheiðarlega 4-4-2 og fór í fótbolta af gamla skólanum. Það svínvirkaði og skilaði Stjörnunni þremur stigum. Stjörnur og skúrkar Samúel Kári átti góða innkomu inn í leikinn en með innkomu færðist meiri hraði í uppspili Stjörnunnar og festa í varnarleikinn. Guðmundur Baldvin lagði upp markið sem kom Stjörnunni á bragðið í leiknum og skoraði svo markið sem tryggði Stjörnunni sigurinn. Var auk þess öflugur inni á miðsvæðinu. Benedikt Warén var iðinn við kolann allan leikinn, skoraði eitt mark og nældi í vítið sem Andri Rúnar skoraði úr. Hallgrímur Mar var mikið í boltanum og skapaði góðar stöður fyrir samherja trekk í trekk. Hallgrímur Mar fiskaði svo vítið og skoraði markið úr vítinu sem kom KA-mönnum á bragðið. Birnir Snær var svo iðinn við að koma sér í færi á vinstri vængnum og skoraði huggulegt mark. Marcel Römer var góður inni á miðjunni á meðan hann spilaði, skilaði boltanum vel frá sér og var öflugur í návígjum. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Gylfi Már Sigurðarson, Tomasz Piotr Zietal og Þorfinnur Gústaf Þorfinnsson dæmdu þennan leik af stakri prýði. Vítaspyrnudómarnir voru báðir hárréttir og þeir félagar fá átta í einkunn fyrir vel unnin störf. Stemming og umgjörð Þeir rúmlega 600 áhorfendur sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld létu ágætlega í sér heyra og fínasta stemming var á vellinum. Það var þó nett þynnka í stuðningsmannasveitum beggja liða og köllin og sönggleðin hefur oft verið meiri á kappleikjum þar sem Silfurskeiðin á í hlut. Hamborgararnir upp á 10 hjá Stjörnumönnum og ekki yfir neinu að klaga í umgjörð leiksins. Besta deild karla Stjarnan KA
Stjarnan kom til baka eftir að hafa lent 2-0 undir gegn KA og fór með 3-2 sigur af hólmi þegar liðin áttust við í 21. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabænum í kvöld. Það var Guðmundur Baldvin Nökkvason sem tryggði Stjörnunni stigin þrjú með næstsíðasta sparki leiksins. Hér voru að leiða saman hesta tvo lið á góðu skriði en Stjarnan hafði fengið 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm deildarleikjum og KA 11 af síðustu 15 fyrir þennan leik. KA-menn voru ívíð sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en Marcel Römer skallaði boltann í þverslána um miðjan fyrri hálfleikinn og skömmu síðar átti Guðjón Ernir Hrafnkelsson hnitmiðaðan skalla sem Árni Snær Ólafsson varði vel. Benedikt Warén var aðgangsharðastur í sóknarleik Stjörnunnar og komst næst því að skora fyrir heimamenn. Það var hins vegar Hallgrímur Mar Steingrímsson sem kom KA-mönnum yfir andartaki áður en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson blés til hálfleiks. Örvar Eggertsson felldi þá Hallgrím Mar innan vítateigs Stjörnunnar og Vilhjálmur Alvar benti á vítapunktinn. Hallgrímur Mar skoraði af feykilegu öryggi og staðan 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Birnir Snær Ingason tvöfaldaði svo forystu KA í upphafi seinni hálfleiks. Hans Viktor Guðmundsson átti þá flotta stungusendingu á Birni Snæ sem var einn á auðum sjó og setti boltann smekklega í fjærhornið. Á þessum tímapunkti var lítið í kortunum hjá Stjörnunni og allt útlit fyrir að KA-menn myndu taka með sér þrjú stig norður yfir heiðar. Benedikt Warén hóf hins vegar þegar hann minnkaði muninn í 2-1. Benedikt fékk þá snyrtilega stungusendingu frá Guðmundi Baldvin Nökkvasyni og kláraði færið með góðu skoti í fjærhornið. Benedikt Warén sótti svo á Guðjón Erni Hrafnkelsson um það bil mínútum fyrir leikslok. Guðjón Ernir felldi Benedikt og aftur benti Vilhjálmur Alvar réttilega á vítapunktinn. Andri Rúnar Bjarnanson jafnaði metin með vítaspyrnu sinni. Líkt og í vítaspyrnu Hallgríms Mars var spyrna Andra Rúnars föst og góð. Steinþór Mar Auðunsson fór eins og Árni Snær í rétt horn en boltinn endaði í netinu. Staðan jöfn og enn var nægur tími fyrir dramatík og sigurmark. Bæði lið fengu færi til þess að hrifsa til sín sigurinn en á lokaandartökum leiksins setti Guðmundur Baldvin boltann í netið með skoti af stuttu færi. Lokatölur 3-2 fyrir Stjörnuna sem hefur nú 37 stig og situr í þriðja sæti deildarinnar. KA situr aftur á móti með sárt ennið með sín 26 stig í sjötta sæti. Jökull Elísabetarson sá sína menn vinna góðan sigur í dag.Vísir/Ernir Jökull I. Elísabetarson: Skulduðum stuðningsmönnum að stíga upp „Við vorum mjög flatir í fyrri hálfleik og fórum vel og vandlega yfir hlutina í hálfleik. Þar ræddum við að við þyrftum að einfalda spilið okkar og vera með grunnatriði leiksins betur á hreinu. Eftir að við lentum 2-0 undir þá vaknaði liðið og við fórum að spila mun betur,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, um spilamennsku sinna manna. „Ef við viljum fá fleiri á völlinn þá þurfum við að spila af meiri orku en við gerðum í sigrinum á móti KR og betur heilt yfir í leiknum en við gerðum í þessum leik. Við sýndum þó klærnar í þessum leik og gáfum stuðningsmönnum okkar eitthvað fyrir peninginn síðasta hálftímann eða svo,“ sagði Jökull enn fremur. „Við fórum í heiðarlegan 4-4-2 með tvo stóra framherja hér undir lokin og sem betur fer gekk það upp og skilaði því sem við vildum. Aftur eins og eftir leikinn á móti KR þá kalla ég samt eftir betri og heilsteyptaði frammistöðu hjá okkur í næstu leikjum,“ sagði hann. „Við erum á góðu skriði samt og erum að ná í góð úrslit, það er mjög jákvætt. Ef við viljum samt gera okkur almennilega gildandi í toppbaráttunni, eins og stefnan er, þá verðum við að fara að ná upp betra jafnvægi í okkar leik,“ sagði Jökull um framhaldið. Hallgrímur Jónasson: Spiluðum vel í 70 mínútur en það er ekki nóg „Ég er virkilega ósáttur við að fá ekkert út úr þessum leik. Við spiluðum fanta vel fyrstu 70 mínútur leiksins og fengum færi og stöður til þess að bæta fleiri mörkum við og vera meira yfir. Það er sárt að fá ekkert út úr þessum leik eins og mér fannst við eiga skilið,“ sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. „Síðustu 20 mínúturnar förum við allt of snemma að verja fenginn hlut og förum allt of neðarlega á völlinn. Þeir setja stóra og sterka leikmenn fram á völlinn og við náðum ekki að díla nógu vel við það. Við hefðum átt að gera mun betur á lokakafla leiksins,“ sagði Hallgrímur þar að auki. „Mig langar samt að benda á að mér finnst það til skammar hvernig Stjarnan tekur á móti liðum hér á Samsung-vellinum. Leikskýrslan kemur trekk í trekk 45 mínútum fyrir leik á meðan við skilum skýrslunni af okkur klukkutíma fyrir leik. Þeir vökva svo bara völlinn öðru megin og hundbleyta varamannaskýlið okkar. Mér finnst að KSÍ eigi að taka á þessu og þetta er Stjörnunnni ekki til sóma,“ sagði hann óánægður. „Að því sögðu þá bara tökum við það jákvæða úr þessum leik inn í hörkuleik á móti Vestra í næstu umferð deildarinnar. Við fáum nægan tíma til þess að safna orku fyrir þann leik. Við höfum verið á góðu róli undanfarið og liðið er á góðum stað. Þrátt fyrir þetta svekkjandi tap fyrir við brattir inn í leikinn við Vestra,“ sagði Hallgrímr um framhaldið. Hallgrímur Jónasson var sáttur við spilamennskuna en ósáttur við niðurstöðuna. Vísir/Anton Brink Atvik leiksins Jökull I. Elísabetarson gerði þrefalda skiptingu um miðbik seinni hálfleiks. Samúel Kári Friðjónsson, Örvar Logi Örvarsson og Baldur Logi Guðlaugsson komu þá inná. Steven Caulker fór í fremstu víglínu og Jökull stillti upp í strangheiðarlega 4-4-2 og fór í fótbolta af gamla skólanum. Það svínvirkaði og skilaði Stjörnunni þremur stigum. Stjörnur og skúrkar Samúel Kári átti góða innkomu inn í leikinn en með innkomu færðist meiri hraði í uppspili Stjörnunnar og festa í varnarleikinn. Guðmundur Baldvin lagði upp markið sem kom Stjörnunni á bragðið í leiknum og skoraði svo markið sem tryggði Stjörnunni sigurinn. Var auk þess öflugur inni á miðsvæðinu. Benedikt Warén var iðinn við kolann allan leikinn, skoraði eitt mark og nældi í vítið sem Andri Rúnar skoraði úr. Hallgrímur Mar var mikið í boltanum og skapaði góðar stöður fyrir samherja trekk í trekk. Hallgrímur Mar fiskaði svo vítið og skoraði markið úr vítinu sem kom KA-mönnum á bragðið. Birnir Snær var svo iðinn við að koma sér í færi á vinstri vængnum og skoraði huggulegt mark. Marcel Römer var góður inni á miðjunni á meðan hann spilaði, skilaði boltanum vel frá sér og var öflugur í návígjum. Dómarar leiksins Dómarar leiksins, þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Gylfi Már Sigurðarson, Tomasz Piotr Zietal og Þorfinnur Gústaf Þorfinnsson dæmdu þennan leik af stakri prýði. Vítaspyrnudómarnir voru báðir hárréttir og þeir félagar fá átta í einkunn fyrir vel unnin störf. Stemming og umgjörð Þeir rúmlega 600 áhorfendur sem lögðu leið sína á völlinn í kvöld létu ágætlega í sér heyra og fínasta stemming var á vellinum. Það var þó nett þynnka í stuðningsmannasveitum beggja liða og köllin og sönggleðin hefur oft verið meiri á kappleikjum þar sem Silfurskeiðin á í hlut. Hamborgararnir upp á 10 hjá Stjörnumönnum og ekki yfir neinu að klaga í umgjörð leiksins.
Uppgjörið: Stjarnan - KA 3-2 | Guðmundur Baldvin fullkomnaði endurkomu Stjörnunnar með flautumarki