Skoðun

Hver er kjarninn í sam­fé­lagi sem selur hjarta sitt?

Trausti Breiðfjörð Magnússon skrifar

Víða um land hefur verið ráðist að grunnkerfum sveitarfélaga undir möntrunni: „Við höfum ekki efni á þessu lengur.“ Hvort sem það eru heilsugæslur, skurðstofur, fæðingardeildir, skólastarf, sundlaugar eða nú síðast félagsheimilin, þá er stefnan alltaf sú sama. Þau hús sem gera samfélagið lifandi og gerir fólki kleift að lifa þar með reisn skulu fjúka í nafni „sparnaðar“ og „hagkvæmni.”

Á síðustu mánuðum hafa þannig birst fréttir af fyrirhuguðum sölum á þessum eigum bæjarbúa. Allt í nafni þess að “hagræða í rekstri”. Þetta er planið á stöðum eins og Raufarhöfn, Skagafirði og Flateyri. Félagsheimilin eru víst ekki lengur hluti af “kjarnastarfsemi” sveitarfélaga. Með þeim rökum er í raun litla þjónustu hægt að veita. Gildir þá einu hvað íbúum finnst en þeir hafa mótmælt þessum áætlunum með undirskriftarsöfnunum bæði í Skagafirði og á Raufarhöfn.


Ekki bara hús heldur hjartað

Félagsheimilin hafa verið vettvangur þar sem fólk hittist, ræðir málin, heldur dansleiki, minningarathafnir, fundi, tónleika og árshátíðir. Þar sem krakkar læra að stíga sín fyrstu spor á sviði. Þar sem líf, hlátur og pólitík blandast saman. Þetta eru húsin þar sem samfélögin viðhalda sér og þróast áfram. Bæjarbúar eiga húsið saman og geta notað á þann hátt sem þeir kjósa.

Að selja þessi hús er óafturkræf og skaðleg aðgerð. Hún sendir þau skilaboð til íbúa að samkomur þeirra skipti ekki máli. Mannleg samskipti og viðburðir á forsendum íbúa er ekki inni í jöfnunni um hvað það er, sem gerir sveitarfélag að góðum stað.


Þetta er hluti af stærri þróun

Sveitarstjórnir tala oft um lokanir á grunnþjónustu eins og um sé að ræða „erfiðar ákvarðanir“ sem „enginn vilji taka“. En staðreyndin er sú að þetta er pólitísk ákvörðun, og hún byggir á hagsmunum þeirra sem stjórna bæjarfélögum í krafti peninga. Krafan er sú að allt sem viðkemur daglegu lífi fólks skuli fara fram á sviði eigenda fyrirtækjanna. Orðræða er sett í gang um að ef fólk greiði ekki fyrir notkun á einhverju sé það byrði fyrir samfélagið. Byrði fyrir samfélagið að fólk sé að hittast án þess að peningar þeirra séu að renna í vasa peningaaflanna. Þetta er líka hluti af innreið einstaklingshyggjunnar þar sem áhersla og skilningur á samfélagslegum innviðum fer dvínandi. Afleiðingarnar eru aukin vanlíðan, sérstaklega meðal ungs fólks á Vesturlöndum.

Þetta er sú hugmyndafræði sem lætur okkur gleyma því að samfélög eru ekki fyrirtæki. Ísland er ríkt land en samt hefur grunnþjónustu farið hrakandi á landsbyggðinni. Þar sem áður voru reknar fæðingardeildir og skurðstofur bjóða í dag upp á hvorugt. Það þýðir lítið að klóra sér í hausnum yfir því að ungt fólk flytji til Reykjavíkur þegar grunnþjónustu sem hægt var að halda uppi árið 1980 er ekki til staðar árið 2025.

Félagsheimilin eru okkar

Við verðum að snúa þessari þróun við. Félagsheimili eru ekki bara minjar um liðna tíð heldur grundvöllur þess að samfélög geti verið meira en bara samansafn fólks með póstnúmer.

Það er hægt að endurvekja þau, nýta þau fyrir lýðræðisþróun, félagsstarf, listræna sköpun og samveru. En fyrst þurfum við að viðurkenna að þau skipti máli.

Hlúum að hjörtum bæjarfélaga á landinu.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×