Neytendur

Skamma og banna Play að blekkja neyt­endur

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Auglýsingar Play fóru ekki vel í fulltrúa Neytendastofu.
Auglýsingar Play fóru ekki vel í fulltrúa Neytendastofu. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur skammað og bannað flugfélaginu Play að birta auglýsingar sem eru líklegar til að blekkja neytendur um raunverulegan afslátt af flugi. Flugfélagið segir umræddar auglýsingar hafa verið gerðar í góðri trú.

Málið varðar auglýsingar sem birtust meðal annars á vefsíðum félagsins eða samfélagsmiðlum og stóð þar að afsláttur í formi prósentuhlutfalls fengist af flugferðum flugfélagsins. Frasar líkt og „Gleðilegt nýtt flugár! 25% afsláttur af 2025!“ og „Viltu koma út að leika? 33% afsláttur til allra áfangastaða,“ prýddu auglýsingarnar. 

Í úrskurði Neytendastofu segir hins vegar að umræddur afsláttur hafi einungis verið af flugferðinni sjálfri, ekki af endanlegu verði ferðarinnar. Það er að segja, afslátturinn var mun lægri heldur en auglýst prósentutala. Ekki hafi komið fram að takmarkað sætaframboð væri í boði né að að afslátturinn gilti ekki alltaf til allra áfangastaða. Einungis var hægt að sjá takmarkanir afsláttarins ef farið var neðst á síðu bókunarvélar flugfélagsins. 

Auglýsing Play frá því sumarið 2024 þar sem 20 prósenta afsláttur var auglýstur. Afslátturinn náði aðeins til fargjalds en ekki skatta og opinberra gjalda.Play

„Samkvæmt ákvæðinu teljast viðskiptahættir villandi ef fyrirtæki leynir upplýsingum sem skipta máli við ákvörðun um að eiga viðskipti eða þær eru veittar á óljósan eða margræðan hátt,“ segir í úrskurðinum. 

Í svari Play til Neytendastofu segir að umræddar auglýsingar hafi verið gerðar í góðri trú og ekki hafi þau fengið ábendingar áður vegna sambærilegra auglýsinga. Félagið hafi þá sett af stað verkefni til að bæta merkingar og auglýsingar þar sem auglýstur er afsláttur. Lögð verði áhersla á föst verð auk texta eða stjörnumerkinga sem skýra að um sérstakir skilmálar eigi við.

Með framsetningu auglýsingarinnar telur stofnunin þær vera líklegar til að blekkja neytendur um raunverulegt prósentuhlutfall afsláttar af flugi. Einnig hafi ekki verið nægilega skýrt í auglýsingunum til hvaða vöru eða þjónustu áðurnefndur afsláttur næði til. Því væri verið að leyna þeim upplýsingum fyrir neytendum.

Með úrskurðinum, sem birtur var 8. júlí, hefur Neytendastofa bannað Play að viðhafa þessa viðskiptahætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×