Uppgjörið: KR - KA 1-2 | KA úr fallsæti Hinrik Wöhler skrifar 6. júlí 2025 18:00 KA sigraði sinn fjórða leik á tímabilinu í dag. Vísir/Ernir Eyjólfsson KA gerði sér góða ferð suður og sigraði KR á Avis-vellinum í Laugardal í dag. Með sigrinum fóru norðanmenn úr fallsæti og eru nú aðeins stigi á eftir KR eftir 14 umferðir í Bestu-deild karla. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið skiptust á að sækja. Gestirnir frá Akureyri fengu nokkur föst leikatriði í upphafi leiks en nýttu þau ekki. KR-ingar héldu ágætlega í boltann en náðu ekki að opna vörn KA. Það var hart barist í Laugardalnum en gestirnir höfðu betur.Vísir/Ernir Eyjólfsson Lítið breyttist þegar leið á fyrri hálfleik, KR hélt vel í boltann en vörn KA gaf fá færi á sér. Undir lok fyrri hálfleiks pressuðu gestirnir að marki KR og voru nálægt að brjóta ísinn. Hrannar Björn Steingrímsson gaf hnitmiðaða sendingu inn í vítateig þar sem Jakob Snær Árnason var mættur óvaldaður við markteiginn en náði ekki nægilega föstum skalla og Halldór Snær Georgsson, markvörður KR, greip boltann. Mínútu síðar fékk KA skyndisókn sem endaði með skoti frá Hallgrími Mar Steingrímssyni en hann skrúfaði boltann rétt framhjá markinu. Það var öllum brögðum beitt á Avis-vellinum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Þar með lauk markalausum fyrri hálfleik og liðin gengu til búningsherbergja. Það var kraftur í KR-ingum í upphafi seinni hálfleiks og vörðust gestirnir fimlega inn í vítateig. Fyrsta mark leiksins kom á 65. mínútu og í kjölfarið opnuðust flóðgáttirnar. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og kom KA yfir. Hann lyfti boltanum yfir varnarvegg KR og náði markvörður KR, Halldór Snær Georgsson, ekki til boltans. Hallgrímur Mar var hvergi nærri hættur og fjórum mínútum síðar bætti hann við öðru marki. Ingimar Stöle átti heiðurinn að markinu en hann gerði frábærlega þegar hann þaut upp hægri vænginn og lék á varnarmenn KR. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson (t.v.) var í byrjunarliði KR í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Enn var von fyrir heimamenn þegar Aron Sigurðarson minnkaði muninn á 71. mínútu með laglegu marki fyrir utan teig. Boltinn hrökk til Arons fyrir utan teig og hann smellhitti boltann í bláhornið. KR-ingar pressuðu undir lok leiks en KA stóðst pressuna. Gabríel Hrannar Eyjólfsson var nálægt því að jafna þegar hann átti fast skot fyrir utan teig en William Tonning náði að verja og skömmu síðar komst Jóhannes Kristinn Bjarnason einn á móti markverði KA en William varði aftur. Leikurinn endaði 2-1 og situr KA í 10. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og ÍBV sem situr í 9. sæti. Atvik leiksins Leikurinn var fremur rólegur fram að 65. mínútu en þá breyttist hann og mörkin komu á færibandi. Hallgrímur Mar Steingrímsson braut ísinn með laglegu aukaspyrnumarki og lagði gruninn að sigri KA í dag. Stjörnur og skúrkar Hallgrímur Mar Steingrímsson var fremstur meðal jafningja á vellinum í dag. Skoraði bæði mörk KA en Ingimar Stöle fær einnig prik í kladdann en hann gaf frábæra stoðsendingu í öðru marki KA. Hann fór illa með Guðmund Andra Tryggvason og Gabríel Hrannar Eyjólfsson áður en hann gaf boltann fyrir á Hallgrím Mar. William Tonning, markvörður KA, bjargaði norðanmönnum í uppbótartíma þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason fékk gullið tækifæri til að jafna en hann var fljótur að átta sig og lokaði markinu með góðu úthlaupi. Rodrigo Mateo, miðvörður KA, hélt Eið Gauta í skefjum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson KR-ingar áttu í miklum erfiðleikum með opna vörn KA. Það var helst undir lok leiks þar sem færi gafst fyrir KR. Eiður Gauti Sæbjörnsson hafði hægt um sig í sókninni og hefur átt betri leiki í sumar. Dómarar Elías Ingi Árnason, dómari leiksins, lét leikinn fljóta og var ekki að stöðva leikinn að óþörfu. Dæmdi leikinn vel og örugglega. Stemning og umgjörð Tæplega 900 áhorfendur mættu á síðasta heimaleik KR í Laugardalnum áður en flutt verður í Vesturbæinn að nýju, ef áætlanir ganga efti. Rjómablíða og frábærar aðstæður á Avis-vellinum í dag. Sannarlega ekki fjölsóttasti heimaleikur KR á tímabilinu, enda stór ferðahelgi hjá landsmönnum, en ágætis stemning samt sem áður. Viðtöl Fagnaði að hætti Diogo Jota Hallgrímur Mar var á skotskónum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Hallgrímur Mar Steingrímsson var hetja KA í dag og var létt yfir honum í leikslok. Hann segir að allir leikmenn liðsins hafi skilað frábæru dagsverki og það hafi skilað þremur stigum. „ Þú sást það á öllu liðinu að okkur þyrsti í sigur og loksins var liðsframmistaða upp á tíu sem skilaði sigrinum.“ „Það var góð stemning á æfingu í gær þrátt fyrir dapurt gengi og allir voru samstilltir. Allir voru að berjast fyrir hvorn annan, menn voru bara „all-in“ í dag og við þurfum að vera oftar svona,“ sagði Hallgrímur. Hallgrímur smellhitti boltann þegar hann skoraði úr aukaspyrnu á 65. mínútu og segir að vindáttin hafi hjálpað sér. „Þær er bara búnar að vera detta yfir að undanförnu hjá mér. Fann að það var geggjuð vindátt fyrir þetta, ég ákvað að nýta hana og það lukkaðist í dag,“ sagði Hallgrímur um aukaspyrnuna. Hann fagnaði síðan að hætti Diogo Jota, með svokölluðu „PlayStation-fagni“. „Bara útaf Diogo Jota, ég ákvað þetta á stundinni,“ sagði Hallgrímur þegar hann var spurður út í fagnið. Hallgrímur segir að þeir þurfi að byggja ofan á þessum sigri og það þýði ekki að detta í sama farið. Hvað gefur þessi sigur ykkur? „Þrjú stig en gefur ekki neitt fyrir framhaldið. Ekki ef við dettum niður á hælana í næsta leik, þá förum við í sama pakka sem við höfum verið í og við þurfum að halda áfram og sækja í fleiri stig.“ Með sigrinum eru KA komnir úr fallsæti og fer Hallgrímur léttur í lund inn í vikuna. „Mér líður ekki vel þar, léttir allavega vikuna fyrir manni og gefur okkur byr undir báða vængi fyrir næstu leiki,“ sagði Hallgrímur að lokum. Besta deild karla KR KA Íslenski boltinn Fótbolti
KA gerði sér góða ferð suður og sigraði KR á Avis-vellinum í Laugardal í dag. Með sigrinum fóru norðanmenn úr fallsæti og eru nú aðeins stigi á eftir KR eftir 14 umferðir í Bestu-deild karla. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið skiptust á að sækja. Gestirnir frá Akureyri fengu nokkur föst leikatriði í upphafi leiks en nýttu þau ekki. KR-ingar héldu ágætlega í boltann en náðu ekki að opna vörn KA. Það var hart barist í Laugardalnum en gestirnir höfðu betur.Vísir/Ernir Eyjólfsson Lítið breyttist þegar leið á fyrri hálfleik, KR hélt vel í boltann en vörn KA gaf fá færi á sér. Undir lok fyrri hálfleiks pressuðu gestirnir að marki KR og voru nálægt að brjóta ísinn. Hrannar Björn Steingrímsson gaf hnitmiðaða sendingu inn í vítateig þar sem Jakob Snær Árnason var mættur óvaldaður við markteiginn en náði ekki nægilega föstum skalla og Halldór Snær Georgsson, markvörður KR, greip boltann. Mínútu síðar fékk KA skyndisókn sem endaði með skoti frá Hallgrími Mar Steingrímssyni en hann skrúfaði boltann rétt framhjá markinu. Það var öllum brögðum beitt á Avis-vellinum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Þar með lauk markalausum fyrri hálfleik og liðin gengu til búningsherbergja. Það var kraftur í KR-ingum í upphafi seinni hálfleiks og vörðust gestirnir fimlega inn í vítateig. Fyrsta mark leiksins kom á 65. mínútu og í kjölfarið opnuðust flóðgáttirnar. Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og kom KA yfir. Hann lyfti boltanum yfir varnarvegg KR og náði markvörður KR, Halldór Snær Georgsson, ekki til boltans. Hallgrímur Mar var hvergi nærri hættur og fjórum mínútum síðar bætti hann við öðru marki. Ingimar Stöle átti heiðurinn að markinu en hann gerði frábærlega þegar hann þaut upp hægri vænginn og lék á varnarmenn KR. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson (t.v.) var í byrjunarliði KR í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Enn var von fyrir heimamenn þegar Aron Sigurðarson minnkaði muninn á 71. mínútu með laglegu marki fyrir utan teig. Boltinn hrökk til Arons fyrir utan teig og hann smellhitti boltann í bláhornið. KR-ingar pressuðu undir lok leiks en KA stóðst pressuna. Gabríel Hrannar Eyjólfsson var nálægt því að jafna þegar hann átti fast skot fyrir utan teig en William Tonning náði að verja og skömmu síðar komst Jóhannes Kristinn Bjarnason einn á móti markverði KA en William varði aftur. Leikurinn endaði 2-1 og situr KA í 10. sæti deildarinnar með jafnmörg stig og ÍBV sem situr í 9. sæti. Atvik leiksins Leikurinn var fremur rólegur fram að 65. mínútu en þá breyttist hann og mörkin komu á færibandi. Hallgrímur Mar Steingrímsson braut ísinn með laglegu aukaspyrnumarki og lagði gruninn að sigri KA í dag. Stjörnur og skúrkar Hallgrímur Mar Steingrímsson var fremstur meðal jafningja á vellinum í dag. Skoraði bæði mörk KA en Ingimar Stöle fær einnig prik í kladdann en hann gaf frábæra stoðsendingu í öðru marki KA. Hann fór illa með Guðmund Andra Tryggvason og Gabríel Hrannar Eyjólfsson áður en hann gaf boltann fyrir á Hallgrím Mar. William Tonning, markvörður KA, bjargaði norðanmönnum í uppbótartíma þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason fékk gullið tækifæri til að jafna en hann var fljótur að átta sig og lokaði markinu með góðu úthlaupi. Rodrigo Mateo, miðvörður KA, hélt Eið Gauta í skefjum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson KR-ingar áttu í miklum erfiðleikum með opna vörn KA. Það var helst undir lok leiks þar sem færi gafst fyrir KR. Eiður Gauti Sæbjörnsson hafði hægt um sig í sókninni og hefur átt betri leiki í sumar. Dómarar Elías Ingi Árnason, dómari leiksins, lét leikinn fljóta og var ekki að stöðva leikinn að óþörfu. Dæmdi leikinn vel og örugglega. Stemning og umgjörð Tæplega 900 áhorfendur mættu á síðasta heimaleik KR í Laugardalnum áður en flutt verður í Vesturbæinn að nýju, ef áætlanir ganga efti. Rjómablíða og frábærar aðstæður á Avis-vellinum í dag. Sannarlega ekki fjölsóttasti heimaleikur KR á tímabilinu, enda stór ferðahelgi hjá landsmönnum, en ágætis stemning samt sem áður. Viðtöl Fagnaði að hætti Diogo Jota Hallgrímur Mar var á skotskónum í dag.Vísir/Ernir Eyjólfsson Hallgrímur Mar Steingrímsson var hetja KA í dag og var létt yfir honum í leikslok. Hann segir að allir leikmenn liðsins hafi skilað frábæru dagsverki og það hafi skilað þremur stigum. „ Þú sást það á öllu liðinu að okkur þyrsti í sigur og loksins var liðsframmistaða upp á tíu sem skilaði sigrinum.“ „Það var góð stemning á æfingu í gær þrátt fyrir dapurt gengi og allir voru samstilltir. Allir voru að berjast fyrir hvorn annan, menn voru bara „all-in“ í dag og við þurfum að vera oftar svona,“ sagði Hallgrímur. Hallgrímur smellhitti boltann þegar hann skoraði úr aukaspyrnu á 65. mínútu og segir að vindáttin hafi hjálpað sér. „Þær er bara búnar að vera detta yfir að undanförnu hjá mér. Fann að það var geggjuð vindátt fyrir þetta, ég ákvað að nýta hana og það lukkaðist í dag,“ sagði Hallgrímur um aukaspyrnuna. Hann fagnaði síðan að hætti Diogo Jota, með svokölluðu „PlayStation-fagni“. „Bara útaf Diogo Jota, ég ákvað þetta á stundinni,“ sagði Hallgrímur þegar hann var spurður út í fagnið. Hallgrímur segir að þeir þurfi að byggja ofan á þessum sigri og það þýði ekki að detta í sama farið. Hvað gefur þessi sigur ykkur? „Þrjú stig en gefur ekki neitt fyrir framhaldið. Ekki ef við dettum niður á hælana í næsta leik, þá förum við í sama pakka sem við höfum verið í og við þurfum að halda áfram og sækja í fleiri stig.“ Með sigrinum eru KA komnir úr fallsæti og fer Hallgrímur léttur í lund inn í vikuna. „Mér líður ekki vel þar, léttir allavega vikuna fyrir manni og gefur okkur byr undir báða vængi fyrir næstu leiki,“ sagði Hallgrímur að lokum.