Neytendur

Svona mikið kostar kaffið á Star­bucks hér á landi

Atli Ísleifsson skrifar
Talsverður erill var á Starbucks-staðnum við Laugavegi 66 í morgun en staðurinn opnaði í gær.
Talsverður erill var á Starbucks-staðnum við Laugavegi 66 í morgun en staðurinn opnaði í gær. Vísir/Árni

Kaffihús Starbucks opnaði á Laugavegi 66 í Reykjavík en um er að ræða fyrsta kaffihús keðjunnar á hér á landi. Til stendur að opna annað í höfuðborginni á næstu vikum. Kaffið er nokkuð ódýrara en gengur og gerist hér á landi með þeim mikilvæga fyrirvara að neytandinn neyðist til að kaupa stærri bolla.

Nokkur erill var á staðnum við Laugaveg í morgun þegar fréttastofu bar að garði.

Á verðskrá staðarins má sjá að líkt og á stöðum Starbucks erlendis er boðið upp á þrjár stærðir af bollum fyrir nýlagað kaffi, latte, americano, cappuchino, frappuchino, macchiato, ískaffi og heitt súkkulaði. „Tall“ er minnsta stærðin eða um 35 sentilítrar, „grande“ er millistærðin sem er um 47 sentilítrar og svo sá stærsti, „venti“, sem er um 59 sentilítrar.

Vísir/Árni

Lítill verðmunur á stærðunum

Á verðskránni má sjá að almennt er hlutfallslega lítill verðmunur á minnstu stærðinni og þeirri stærstu. Fyrir „nýlagað kaffi“ þurfa viðskiptavinir að greiða 760 krónur fyrir minnstu stærðinni af bolla (tall), 800 krónur fyrir millistærðina „grande“ og 840 krónur fyrir stærsta bollann, „venti“.

Fyrir latte þurfa viðskiptavinir að greiða 925 krónur fyrir minnsta bollann, 970 krónur fyrir millistærðina og 1.020 krónur fyrir þann stærsta.

Americano-kaffi kostar 875 krónur í „tall“ bolla, 920 krónur í „grande“ og 965 krónur í „venti“.

Til samanburðar má á heimasíðu Starbucks sjá að „tall“ americano kostar 4,84 Bandaríkjadali, „grande“ 5,17 dali og „venti“ 5,72 dali. Það myndi samsvara 588 krónur fyrir minnstu stærðina, 628 krónur fyrir miðstærð og 685 krónur fyrir þá stærstu á gengi dagsins í dag.

Fyrir þá sem panta sér cappuchino þarf að greiða 865 krónur fyrir lítinn, 910 krónur fyrir miðlungs og 955 krónur fyrir stóran.

Starbucks við Laugaveg 66.Hafliði Breiðfjörð

Tvöfaldur espresso á 800 krónur

Espresso er selt annars vegar í svokölluðum „short“ bolla, sem er um 24 sentilítrar, og hins vegar í „tall“ bolla, sem er um 35 sentilítrar. Fyrir einfaldan espresso í minni bollanum þarf að greiða 730 krónur en fyrir tvöfaldan þarf að greiða 800 krónur.

Fyrir frapuccino kaffi þurfa viðskiptavinir að greiða 1.325 krónur fyrir lítinn, 1.390 krónur fyrir millistærð og 1.460 krónur fyrir stóran. 

Sjá má verðskrána í heild sinni á myndunum að neðan.

Vísir/Árni
Vísir/Árni

Áhugavert er að bera verðið hjá Starbucks saman við verðið hjá Te og kaffi, stærstu kaffihúsakeðju landsins. Í fljótu bragði virðist ekki mikill munur á verðinu sé miðað við „tall“ stærðina hjá Starbucks. En samanburðurinn er áhugaverður ef miðað er við magn. 

Almenna stærðin hjá Te og kaffi svarar til „short“ stærðarinnar hjá Starbucks sem selur aðeins Espresso og Flat white í þeirri stærð. Annað kaffi þarf að kaupa að lágmarki í stærð „tall“. Þannig fær kaupandinn hjá Starbucks helmingi stærri bolla en hefur á sama tíma ekkert val um minni stærð. 

Verð á kaffi hjá Te og kaffi 4. júlí 2025.Vísir

Verð per magn er því almennt töluvert lægra hjá Starbucks en á Te og kaffi. En svo er það spurningin hve mikið kaffi neytandinn þarf eða vill kaupa. Og hvort að neytendur Starbucks klári alla jafna kaffið sitt þegar það er afgreitt í svo stórum skömmtum.


Tengdar fréttir

Starbucks opnaði á Laugavegi í dag

Kaffihús Starbucks opnaði í dag í Reykjavík eftir langa bið eftir leyfisveitingu frá Reykjavíkurborg. Þetta er fyrsta kaffihús keðjunnar á Íslandi en til stendur að opna annað í borginni á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×