Skoðun

Brýr, sýkingar og börn

Jón Pétur Zimsen skrifar

Hvernig ætli það væri ef brýr um land allt hefðu gefið sig sl. áratugi, þær væru nú fjölmargar ónothæfar og ástandið hefði orsakað fjöldann allan af alvarlegum slysum?

Hefði samgönguráðherra ekki fylgst með málinu og bæði hann og hans ráðuneyti væru grunlaus um hvað byggi að baki þessu stórhættulega ástandi?

Hvernig væri það svo ef heilbrigðisráðherra og hans ráðuneyti hefði ekki hugmynd um fjölda sýkinga eftir skurðaðgerðir á LHS sem yrði til þess að tæplega helmingur sjúklinga væri að glíma við alvarleg veikindi?

Þetta eru auðvitað galnar sviðsmyndir sem hafa sem betur fer ekki raungerst enda myndi slíkt ekki viðgangast í þessum málaflokkum.

Einn er þó málaflokkur þar sem staðan er svona, að tæpur helmingur barna útskrifast úr skyldunámi án þess að ráða við að lesa upplýsingatexta og vinna úr honum.

Það versta við það er að mennta- og barnamálaráðherra og ráðuneyti hans hafa EKKI hugmynd um hvers vegna staðan er svona og hefur verið árum saman.

Þau vita EKKI hvers vegna staðan er svona og geta þá ekki brugðist við og börnin okkar verða af lögbundinni menntun.

Það hefur stórkostleg áhrif til allrar framtíðar og skerðir lífsgæði, ævitekjur og tækifæri til þroska og vaxtar.

Ekki er Reykjavíkurborg á betri stað en ráðherra, þar hafa menn EKKI hugmynd um orsakir þessa hruns. Og geta því ekki brugðist við.

Eru til leiðir og lausnir? Svarið er já.

Ég veit um skólasamfélög sem hafa blómstrað sl. áratugi þar sem námsárangur er frábær, líðan góð, tengsl mikil, traust alltumlykjandi og kostnaður lítill.

Þetta er hægt og það er til fólk sem veit, vill og getur. Það þarf bara að hlusta á það í þágu barnanna okkar.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×