Skoðun

Brýn þörf á auknum fjár­veitingum vegna sjávar­flóða

Anton Guðmundsson skrifar

Sjáv­ar­flóð eru nátt­úru­vá sem Íslend­ing­ar þurfa að búa við og mik­il­vægt er að bregðast við á viðeig­andi hátt. Líkt og í bar­átt­unni við of­an­flóð, þar sem sterk og mark­viss varn­ar­vinna hef­ur skilað góðum ár­angri, er nauðsyn­legt að setja upp öfl­ug­ar sjóvarn­ir til að lág­marka skaða af völd­um sjáv­ar­flóða.

Hækk­andi sjáv­ar­staða og aukn­ar veður­sveifl­ur gera það að verk­um að mik­il­vægi sjóvarna hef­ur aldrei verið meira. Sam­kvæmt áætl­un­um sam­göngu­áætlun­ar er gert ráð fyr­ir að verja 150 millj­ón­um króna ár­lega í sjóvarn­ir á landsvísu. Það er ljóst að þessi upp­hæð er langt frá því að nægja til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem skap­ast hef­ur á und­an­förn­um árum, sér­stak­lega á þeim svæðum sem eru hvað viðkvæm­ust fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Á Suður­nesj­um hafa ít­rekað komið upp til­vik þar sem sjáv­ar­flóð hafa ógnað byggð og innviðum. Í Suður­nesja­bæ varð stór­tjón 1. mars 2025 þegar hafn­ar­mann­virki og aðrar eign­ir urðu fyr­ir mikl­um skaða af völd­um sjáv­ar­flóða. Bænd­ur og land­eig­end­ur urðu fyr­ir veru­legu tjóni og ann­ar golf­völl­ur­inn í sveit­ar­fé­lag­inu var illa leik­inn. Kirkju­g­arðar voru einnig í stór­hættu á að verða fyr­ir ágangi sjáv­ar.

Ástandið er þannig að jafn­vel þyrfti í raun að nýta alla þá fjár­hæð sem ætluð er í sjóvarn­ir á landsvísu ein­göngu í Suður­nesja­bæ til að tryggja nauðsyn­leg­ar varn­ir þar. Þetta und­ir­strik­ar hversu brýnt það er að end­ur­skoða fjár­mögn­un sjóvarna hér á landi.

Eitt mögu­legt úrræði væri að skoða stofn­un sér­staks sjáv­ar­flóðasjóðs að fyr­ir­mynd of­an­flóðasjóðs. Þannig mætti tryggja sam­ræmda stefnu og stöðugan fjár­hags­leg­an stuðning við varn­ir gegn sjáv­ar­flóðum um landið allt. Að sama skapi mætti horfa til þess að auka fjár­veit­ing­ar rík­is­ins í sjóvarn­ir og setja slíkt á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Þegar horft er til framtíðar er ljóst að vand­inn mun aðeins aukast. Lofts­lags­breyt­ing­ar, hækk­andi sjáv­ar­staða og auk­in tíðni óveðra eru staðreynd­ir sem ekki er hægt að líta fram­hjá. Nú er tím­inn til að bregðast við – áður en kostnaður­inn við aðgerðir verður óviðráðan­leg­ur.

Ég skora á rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokki fólks­ins að setja sjáv­ar­flóð og sjóvarn­ir á dag­skrá. Það er deg­in­um ljós­ara að þörf­in er knýj­andi og hún á aðeins eft­ir að aukast á kom­andi árum. Nú er mik­il­vægt að grípa til aðgerða til að tryggja vernd viðkvæmra svæða fyr­ir sjáv­ar­flóðum.

Höf­und­ur er odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Suður­nesja­bæ.




Skoðun

Sjá meira


×