Innlent

„Mér finnst þetta ómögu­leg fram­koma“

Vésteinn Örn Pétursson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Bryndís og Jón Baldvin telja málið allt hið ömurlegasta, og segja skilning stjórnvalda engan.
Bryndís og Jón Baldvin telja málið allt hið ömurlegasta, og segja skilning stjórnvalda engan. Vísir/Anton Brink

Hjónin Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og Bryndís Schram eiginkona hans voru meðal mótmælenda fyrir utan ríkisstjórnarfund í dag. Þau kröfðust þess að hinum 17 ára gamla Oscar Andre Bocanegra Florez yrði veitt dvalarleyfi. 

„Þetta er barnaverndarmál. Ég skrifaði barnaverndarráðherra um málið, og benti á að fyrir liggur umsókn ágæts fólks um að taka hann í fóstur,“ sagði Jón Baldvin þegar hann var tekinn tali á mótmælunum í dag. 

Þar vísaði hann til hjónanna Sonju Magnúsdóttur og Svavars Jóhannssonar, sem hafa boðist til að taka drenginn í fóstur. Honum hefur verið synjað um dvalarleyfi hér á landi og gæti því verið sendur til Kólumbíu hvenær sem er.

„Barnaverndaryfirvöld þurfa bara að segja já takk við því góða boði. Málið leyst. En ég hef ekki fengið neitt svar í heila viku. Það er ekki tekinn síminn, ekki neitt. Mér finnst þetta ómöguleg framkoma,“ sagði Jón Baldvin.

Bryndís Schram sagði mikinn stuðning í samfélaginu með Oscari. Fleiri hafi mætt á síðasta mótmælafund en þann sem fram fór í morgun.

„Og maður fann það hvað fólk stóð þétt að baki þessara hjóna. Þetta er yndislegt fólk. Ég skil ekki tilganginn með þessu. Það átti að senda hann út í síðasta mánuði, það eru komnar margar vikur síðan. Hann hefur ekki getað sofið, hann hefur ekki getað stundað nám. Hvar er samúðin með börnum? Ég get bara grátið yfir þessu,“ sagði Bryndís.

Teljið þið að ríkisstjórnin muni bregðast við í þessu?

„Ég trúi ekki öðru en að þeir hegði sér eins og menn,“ sagði Jón Baldvin. Bryndís bætti við að þegar ráðherrar mættu á fundinn hafi þeir brosað og veifað til mótmælenda.

„En hvað býr að baki? Enginn skilningur.“


Tengdar fréttir

„Við gerum ekki svona við börn“

„Ég er gáttaður á því hvernig þetta samfélag kýs að koma fram við börn,“ segir tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Hann er meðal þeirra sem mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun hins 17 ára Oscars við fundarstað ríkisstjórnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×