Chelsea upp í fjórða sætið

Nicolas Jackson fagnar mikilvægu marki sínu fyrir Chelsea í dag.
Nicolas Jackson fagnar mikilvægu marki sínu fyrir Chelsea í dag. Getty/Darren Walsh

Chelsea hoppaði upp fyrir bæði Nottingham Forest og Newcastle og alla leið upp í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Everton á Stamford Bridge í dag.

Nicolas Jackson var hetja Chelsea en hann skoraði eina markið í fyrri hálfleiknum.

Chelsea var sterkara liðið en þetta var lokaður leikur og ekki mikið um góð færi. Everton spilaði betur í seinni hálfleiknum en tókst ekki að fá eitthvað út úr leiknum.

Það er gríðarlega mikil barátta um síðustu Meistaradeildarsætin og hver sigur gulls ígildi fyrir félögin. Eftir aðeins einn sigur í fjórum leikjum hefur Chelsea nú náð að vinna tvo leiki í röð.

Chelsea er með 60 stig eins og Forest en er með betri markatölu. Newcastle er síðan stigi neðar en bæði liðin eiga nú leik inni á Chelsea.

Everton menn hafa bjargað sér fyrir löngu en hafa ekki verið að fá mikið út úr síðustu leikjum sínum. Liðið er í þrettánda sæti eftir þetta tap, með jafnmörg stig og Manchester United og Wolves en með betri markatölu.

Enzo Maresca var að stýra Chelsea í fimmtugasta skiptið en þurfti að sitja upp í stúku þar sem hann tók úr leikbann.

Jackson kom Chelsea í 1-0 á 27. mínútu leiksins.

Beto, sóknarmaður Everton, tapaði þá boltanum á miðjunni, Enzo Fernandez var fljótur að koma boltanum fram völlinn á Jackson sem skoraði með góðu skoti fyrir utan teig.

Þetta var langþáð mark fyrir Jackson sem hafði ekki skorað í þrettán leikjum. Það reyndist líka vera eina mark leiksins.

Jackson hélt að hann hefði skorað aftur í seinni hálfleik en var réttilega dæmdur rangstæður.

Robert Sanchez, markvörður Chelsea, bjargaði tvisvar sinnum frábæra markvörslu í seinni hálfleiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira