Skoðun

Guð­rún Haf­steins nýr leið­togi - Sam­einandi afl

Jóna Lárusdóttir skrifar

Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem lengst af hefur verið við völd í lýðveldissögunni og er það líklega meginforsenda þess að Ísland er eitt mesta velferðar- og velsældarríki heims. Sjálfstæðiflokkurinn hefur nefnilega þá grundvallarstefnu að æskilegast sé fyrir samfélagið að einstaklingurinn fái að blómstra á eigin forsendum; frelsi til að búa til eigin velgengni, með eins litlum afskiptum ríkisvaldsins og kostur er.

Í seinni tíð hefur flokkurinn þó fjarlægst kjósendur sína eins og endurspeglast í kosningum síðustu ára. Það er m.a. vegna þess að stefnu flokksins hefur ekki verið fylgt í löngu og oft á tíðum eitruðu samstarfi við önnur stjórnmálaöfl. Sjálfstæðisstefnan er bókstafleg ávísun á framþróun og velmegun þjóðar. Til að flokkurinn geti aftur náð fyrri styrk þarf að setja þá stefnu aftur á dagskrá.

Í því samhengi er mikilvægast að til forystu í flokknum veljist leiðtogi sem getur laðað að nýtt fólk og brottflutt sjálfstæðisfólk, leiðtogi sem nýtur trausts og getur sætt ólík sjónarmið, leiðtogi sem ekki er brennimerktur ákveðnum fylkingum. Leiðtoginn þarf fyrst og fremst að vera það sameinandi afl sem áður gerði flokkinn að risavaxinni breiðfylkingu, hvers áhrif gerðu Ísland að því velsældarríki sem það er í dag.

Það er því gríðarlegt tækifæri fyrir flokkinn að í framboði sé Guðrún Hafsteinsdóttir, fjölskyldukonan af landsbyggðinni sem hefur lifað og hrærst í ábyrgðarstöðum atvinnulífsins árum saman. Í því felst gríðarleg reynsla af því að leiða saman ólíka hópa og sætta sjónarmið í krafti þess að berjast fyrir sameiginlegri hugsjón. Þetta eru þeir kostir sem Guðrún Hafsteinsdóttir býr yfir. Þetta eru þeir kostir sem flokkurinn þarf til að endurheimta fyrri styrk, til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Stétt með stétt.

Höfundur er flugfreyja og formaður félags sjálfstæðismanna í Grafarholti og Úlfarsárdal.




Skoðun

Sjá meira


×