Erlent

Nær úti­lokað að smá­stirni sem fylgst var með rekist á jörðina

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd VLT-sjónauka ESO af smástirninu 2024 YR4 frá því í janúar.
Mynd VLT-sjónauka ESO af smástirninu 2024 YR4 frá því í janúar. ESO/O. Hainaut

Nýjar athuganir benda til þess að líkurnar á því að smástirni sem grannt hefur verið fylgst með rekist á jörðina séu nánast engar. Um tíma voru líkurnar á árekstri metnar þær mestu sem nokkru sinni hafa mælst fyrir smástirni af þessari stærð.

Smástirnið 2024 YR4 fannst seint í desember en sporbraut þess liggur nærri jörðinni 22. desember árið 2032. Fylgst var grannt með smástirninu vegna stærðar þess og líkanna á árekstri við jörðina. Smástirnið er talið fjörutíu til níutíu metrar að þvermáli, álíka stórt og loftsteinninn sem sprakk yfir Tunguska í Síberíu árið 1908 og felldi milljónir trjáa á meira en tvö þúsund ferkílómetra svæði.

Um miðjan þennan mánuð voru líkurnar á árekstri metnar þrjú prósent. Aldrei hafa verið taldar meiri líkur á árekstri smástirnis sem er stærra en þrjátíu metrar að þvermáli við jörðina og var smástirnið efst á válista evrópsku geimstofnunarinnar.

Athuganir sem hafa síðan verið gerðar á braut smástirnisins benda til þess að líkur á árekstri við jörðina séu í kringum 0,001 prósent. Smástirnið er því ekki lengur efst á válistanum, að því er kemur fram í tilkynningu frá Evrópsku stjörnustöðinni á suðurhveli (ESO) en VLT-sjónauki hennar í Síle var einn þeirra sem fylgdust með hnullunginum.

Fallin tré eftir að loftsteinn sprakk nærri Tunguska-ánni í austanverðri Síberíu árið 1908. Sá loftsteinn var af svipaðri stærðargráðu og smástirnið sem fylgst hefur verið með vegna mögulegrar árekstrarhættu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×