Erlent

Lykil­orð Louvre ein­fald­lega Louvre

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á skartgripunum en verðmæti þeirra er talið vera um 90 milljónir evra.
Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á skartgripunum en verðmæti þeirra er talið vera um 90 milljónir evra. AP

Lykilorðið að öryggismyndavélakerfi Louvre-safnsins þegar brotist var inn í síðasta mánuði var einfaldlega nafn safnsins. Engin öryggismyndavél sneri heldur að glugganum sem þjófarnir brutu til að komast inn.

Þann 19. október framdi hópur fólks rán á Louvre-safninu þar sem nokkrum krúnudjásnum Frakka var stolið. Þjófarnir komust á brott með átta skartgripi, þar á meðal kórónu, hálsmen og eyrnalokka. Alls hafa sjö verið handteknir í tengslum við ránið en einum sleppt lausum. Lögregla hefur ekki fundið neinn af skartgripunum.

Í frétt ABC, þar sem haft er eftir ónefndum starfsmanni safnsins, segir að lykilorðið fyrir öryggismyndavélakerfi safnsins hafi einfaldlega verið nafn safnsins, Louvre. Svo virðist sem starfsmenn öryggisgæslunnar hafi verið ansi hugmyndasnauðir þegar kom að lykilorðagerð.

Mikið hefur verið fjallað um öryggiskerfi safnsins en það tók þjófana einungis sjö mínútur að framkvæma glæpinn. Þeir komu stigabíl upp við hlið hússins og brutu glugga. Eina öryggismyndavélin sem var fyrir utan Apollo-salinn þar sem djásnin voru geymd náði ekki yfir gluggann sem þjófarnir brutu og fóru inn um.

Hefur þú hugsað út í hverjar öryggisráðstafanirnar eru á söfnum Íslands? Smári Jökull Jónsson, fréttamaður Sýnar, skoðaði það nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×