Neytendur

Morgun­blaðið skammað fyrir að birta ó­vart lítið merki

Árni Sæberg skrifar
Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum.
Höfuðstöðvar Árvakurs í Hádegismóum. Vísir/Vilhelm

Fjölmiðlanefnd hefur slegið á fingur Árvakurs, fjölmiðlaveitu Morgunblaðsins og tengdra miðla, fyrir að birta áfengisauglýsingu á Mbl.is. Um var að ræða lítið merki bjórsins Tuborg Guld á auglýsingu fyrir tónleika Skálmaldar, sem starfsmaður Árvakurs hafði ekki séð. Fjölmiðlanefnd ákvað að beita ekki sektarheimild í málinu.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar segir að nefndinni hafi borist kvörtun þann 30. október í fyrra, þar sem fram hafi komið að á netmiðlinum Mbl.is hefði sama dag birst auglýsing fyrir tónleika hljómsveitarinnar Skálmaldar þar sem sést hafi vörumerki „Tuborg Guld Pilsner“.

„Að mati kvartanda væri greinilega verið að auglýsa fyrrnefnda vöru, sem væri áfeng, en ekki kom fram í auglýsingunni að um léttöl væri að ræða. Með kvörtuninni fylgdu skjáskot af auglýsingunni af vef mbl.is, skjáskot af vef framleiðandans Carlsberg, þar sem fram kemur hvert áfengisinnihald „Tuborg Guld Pilsner“ er, og stækkuð mynd af auglýsingu Skálmaldar.“

Vísir býr ekki yfir umræddu skjáskoti en auglýsingu fyrir sömu tónleika má sjá hér að neðan:

Hér má sjá umrætt merki í efra vinstra horninu.Skálmöld

Enginn Tuborg Guld til án áfengis

Í niðurstöðu Fjölmiðlanefndar segir að Í auglýsingunni hafi heiti hljómsveitarinnar birst með stórum stöfum ásamt myndum af ýmsum plötuumslögum sveitarinnar og upplýsingum um væntanlega tónleika. 

Efst í hægra horni auglýsingarinnar hafi mátt sjá vörumerki „Tuborg Guld Pilsner“. Ekki hafi komið fram í texta í auglýsingunni eða með öðrum hætti að um óáfenga drykkjarvöru, léttöl, væri að ræða. Samkvæmt vef framleiðandans Carlsberg innihaldi „Tuborg Guld Pilsner“ 5,6 prósent áfengi. 

Hérlendis sé „Tuborg Gold Pilsner“ fáanlegur og áfengisinnihaldið sé 5,5 prósent samkvæmt vef Vínbúðarinnar. Þar komi fram að heildsali/framleiðandi sé Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf.. Á vef fyrirtækisins sjáist að af vörumerkjum frá Tuborg séu aðeins „Tuborg Grøn“ og „Tuborg Classic“ fáanlegir í útgáfum með 2,25 prósent áfengisinnihald eða minna. 

„Af framangreindu leiðir að „Tuborg Guld Pilsner“ telst vera áfeng drykkjarvara en viðskiptaboð fyrir slíkar vörur eru óheimil, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla.“

Mannleg mistök

Fram hafi komið af hálfu Árvakurs að mannleg mistök hefðu leitt til þess að umrædd auglýsing fyrir tónleika Skálmaldar, þar sem sjá mátti vörumerki frá Tuborg, hafi verið sett inn á Mbl.is. Birtingahús hefði unnið auglýsinguna fyrir Árvakur og starfsmaður fjölmiðlaveitunnar ekki tekið eftir vörumerkinu þegar tónleikaauglýsingin birtist á vefnum, enda hefði merkið verið afar smátt. 

Í svarerindi Árvakurs hafi komið fram að lögð væri rík áhersla á það að birta ekki áfengisauglýsingar í miðlum fjölmiðlaveitunnar og Árvakur hefði ítrekað hafnað að birta slík viðskiptaboð. 

Í ljósi þess að fjölmiðlaveitur beri ábyrgð á því að viðskiptaboð sem þær birta á miðlum sínum séu í samræmi við þau lög sem gilda um starfsemina verði að gera þá kröfu að þær gangi úr skugga um að viðskiptaboðin vörðuðu ekki vörur sem óheimilt sé að auglýsa. Aðgæsluskylda fjölmiðlaveitna sé því rík í þeim efnum. Jafnframt verði ábyrgð samkvæmt lögum um fjölmiðla ekki yfirfærð á aðra en lögin ná til.

„Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að viðskiptaboð sem birtust á vef mbl.is þann 30. október 2024 þar sem vörumerki „Tuborg Guld Pilsner“ sást teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi og að með miðlun þeirra á mbl.is hafi Árvakur, sem fjölmiðlaveita netmiðilsins, brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar m.a. viðskiptaboð fyrir áfengi.“

Smávægilegt brot

Þá segir að það breyti engu um ábyrgð Árvakurs að auglýsingin hafi verið unnin af birtingahúsi og starfsmaður Árvakurs hafi aldrei séð hana fullbúna. Árvakur beri fulla ábyrgð á birtingunni sem fjölmiðlaveita Mbl.is.

Aftur á móti hafi Fjölmiðlanefnd ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu, enda hafi að mati nefndarinnar verið um óverulegt brot að ræða.

„Var birting vörumerkis „Tuborg Guld Pilsner“ í tónleikaauglýsingunni lítt áberandi og afar smátt. Jafnframt var litið til skýringa og svara Árvakurs og atvika máls að öðru leyti.“


Tengdar fréttir

Ekki nóg að merkja bjórauglýsingu með „léttöl“

Fjölmiðlanefnd hefur sektað Sýn um 1,5 milljónir króna vegna áfengisauglýsingar sem birt var hér á Vísi. Nefndin taldi að um áfengisauglýsingu hafi verið að ræða þrátt fyrir að auglýsing á Víking Gylltum hafi verið merkt með orðinu „léttöl“. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×