Skoðun

Við höfum tæki­færi, sjálf­stæðis­menn!

Kristín Linda Jónsdóttir skrifar

Það er mikilvægt fyrir alla landsmenn, framtíð lands og þjóðar, að til forystu í Sjálfstæðisflokknum veljist einstaklingur sem hefur í lífi sínu haft kynni af okkur, fólkinu í landinu, á sem fjölbreyttastan hátt.

Einstaklingur sem hefur tekist á við margs konar viðfangsefni í störfum sínum og félagslegri þátttöku og öðlast þannig þekkingu, skilning og virðingu fyrir breiðri flóru fólks, atvinnulífs og byggðar. Sem hefur gengið til verkefna dagsins, bæði með öðrum stjórnendum og sérfræðingum og launþegum sem sinna daglegri iðju við hverskonar þjónustu eða verðamætasköpun.

Sjálfstæðimenn hafa nú tækifæri til að kjósa til forystu einstaklingsem á skömmum tíma hefur sýnt að hann hefur allt til brunns að bera til forystu í stjórnmálum flokks sem vill opna faðminn fyrir öllu fólki sem kýs frelsi og hagsæld fyrir landið okkar og þjóðina alla. Einstaklingur sem ekki hefur snúist á takmörkuðum fleti og öðlast fyrst og fremst reynslu og kynni af fólki, áherslum þess, þörfum og lífsnauðsynjum, með samherjum í stjórnmálun og störfum á malbikinu heldur sinnt fjölbreyttum verkefnum í atvinnulífi, fyrir stofnanir og samtök. Einstaklingur sem býr í jarðri höfuðborgarsvæðisins og þekkir það vel en er samt sem áður búsettur á landbyggðinni og veit og skilur mikilvægi þess fyrir þjóðina alla að við byggjum allt landið af bjartsýni og dug.

Sjálfstæðisflokkurinn býr að því lýðræðislega fyrirkomulagi að fjöldi fólks mætir senn með atkvæðisrétt á landsfund þar sem forysta flokksins er kjörin til starfa, hvert atkvæði þar skiptir máli fyrir okkur landsmenn alla. Það skiptir máli vegna þess að síðasta árhundrað hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið leiðandi afl í íslenskri hagsæld og framþróun. Við sem þjóð höfum farið frá fátækt til þess að vera ein auðugast og hamingjusamasta þjóð heims samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum.

Þess vegna skiptir það máli fyrir okkur öll að Guðrún Hafsteinsdóttir verði kosin formaður Sjálfstæðisflokksins og fái þar með tækifæri til að opna faðm flokksins á nýjan hátt fyrir öllum þeim sem aðhyllast grunngildi flokksins og telja öflugan Sjálfstæðisflokk tryggasta vígið í róstursömum heimi.

Höfundur er sálfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×