Viðskipti erlent

MrBeast gerir til­boð í TikTok

Samúel Karl Ólason skrifar
Jimmy Donaldson, eða MrBeast, er gríðarlega vinsæll áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna.
Jimmy Donaldson, eða MrBeast, er gríðarlega vinsæll áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna. Getty/Jon Kopaloff

YouTube stjarnan og áhrifavaldurinn Jimmy Donaldson, sem gengur undir nafninu MrBeast, segist vilja kaupa kínverska samfélagsmiðilinn TikTok í Bandaríkjunum. Hann hefur tekið höndum saman með Jesse Tinsley, stofnanda employer.com og fleiri aðila en ekki liggur fyrir hver hátt tilboð þeirra til ByteDance, eiganda TikTok er.

Donaldson er vinsælasti aðilinn á YouTube og þriðji vinsælasti notandi TikTok.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, frestaði á dögunum lokun TikTok um 75 daga en verði starfsemin í Bandaríkjunum ekki selt til bandarískra aðila innan þess tíma verður honum lokað.

Í frétt CNN um tilboð Donaldson og Tinsley er haft eftir yfirlýsingu frá Tinsley að aðrir auðjöfrar komi að tilboðinu og þeir vilji ekki sjá samfélagsmiðlinum lokað. Þeir segja að kaupin myndu engin áhrif hafa á starfseminni og þannig væri hægt að tryggja að um 170 milljónir notenda TikTok í Bandaríkjunum geti notað miðilinn áfram.

Reyndi fyrst að loka TikTok 2020

Trump gaf árið 2020 út forsetatilskipun um að loka ætti TikTok en hún var felld niður af dómstólum. Í kjölfar þess tóku þingmenn höndum saman og samþykktu lög um að samfélagsmiðlinum yrði lokað, ef hann yrði ekki seldur til bandarískra aðila.

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði svo í síðustu viku að lögin færu ekki gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og bannið ætti að fara í gegn.

Sjá einnig: Hæsti­réttur veitir TikTok banninu blessun sína

Joe Biden, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, skrifaði undir lögin síðasta vor en þau nutu mikils stuðnings þingmanna beggja flokka vestanhafs. Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að ógn stafi af TikTok vegna þeirra valda sem Kommúnistaflokkur Kína hefur gegn fyrirtækjum þar.

Gefi yfirvöld í Kína fyrirtækjum eins og TikTok skipanir um að afhenda viðkvæmar upplýsingar um notendur eða dreifa áróðri, sé ómögulegt fyrir forsvarsmenn kínverskra fyrirtækja að verða ekki við þeim kröfum.

Trump studdi upprunalega það að banna TikTok í Bandaríkjunum en snerist hugur í fyrra, nokkrum dögum eftir að íhaldssami auðjöfurinn Jeff Yass heimsótti hann í Flórída. Yass var þá hluthafi í TikTok.

Sjá einnig: Snerist hugur um TikTok eftir heimsókn auðjöfurs

Trump hefur þar að auki notið töluverðra vinsælda á TikTok en þar á hann um 14,7 milljónir fylgjenda.

Óljóst hvort Trump geti stöðvað framfylgd laganna

Bannið tók gildi á sunnudaginn en degi áður lokuðu forsvarsmenn samfélagsmiðilsins á hann í Bandaríkjunum. Í rauninni átti bannið ekki að valda lokun TikTok strax. Nýir notendur hefðu ekki getað sótt forritið í síma sína og ekki hefði verið hægt að uppfæra það en hægt hefði verið að nota það um skeið.

Þess í stað fengu notendur upp á skjái sína skilaboð um að miðlinum hefði verið lokað vegna laganna. Þá stóð einnig að Trump hefði heitið því að finna lausn á málinu.

Það var þó opnað fljótt aftur með þeim skilaboðum um að Trump hefði gripið inn í málið.

Hins vegar er enn óljóst hvort Trump geti yfir höfuð stöðvað framfylgd laganna og hafa þingmenn varað við því að fyrirtæki eins og Apple og Google standa enn frammi fyrir háum sektum, veiti þau notendum aðgang að TikTok forritinu eða uppfærslum.

Samkvæmt frétt Reuters var ekki búið að opna á forritið í forritaveitum Apple og Google í Bandaríkjunum í gærkvöldi.

Hafa íhugað að selja Musk

Undanfarna mánuði hafa ráðamenn í Kína sagt að ekki komi til greina að leyfa sölu TikTok í Bandaríkjunum en sá tónn virðist hafa breyst nokkuð. Fjölmiðlar vestanhafs segja viðræður hafa átt sér stað um að selja samfélagsmiðilinn, eða hluta hans, til Elons Musk, sem er náinn bandamaður Trumps.

Trump hefur varað yfirvöld í Kína við því að reyna að stöðva sölu á TikTok.

Aðrir hópar hafa einnig opinberað áhuga á því að kaupa samfélagsmiðilinn en starfsemi hans hefur samkvæmt CNN verið metin á fjörutíu til fimmtíu milljarða dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×