Neytendur

Inn­lend greiðslu­miðlun nauð­syn­leg til að tryggja þjóðar­öryggi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir Dani og Norðmenn borga miklu minna en Íslendinga fyrir greiðslumiðlun, enda sé innlend greiðslumiðlun í báðum löndum. 
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir Dani og Norðmenn borga miklu minna en Íslendinga fyrir greiðslumiðlun, enda sé innlend greiðslumiðlun í báðum löndum.  Vísir/Arnar

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir áríðandi að innlendri greiðslumiðlun verði komið upp á Íslandi. Breki fór yfir stöðuna hvað þetta varðar í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Fjallað hefur verið um málið um árabil og sem dæmi ræddi Breki sama mál í Bítinu fyrir um þremur árum. Hann segir lítið hafa gerst síðan en það sem hafi breyst er að hættan sem steðji að þjóðaröryggi okkar hefur aukist.

„Núna er raunveruleg hætta á að við missum tengsl okkar við útlönd. Að kaplarnir okkar verði skornir í sundur eins og á Eystrasaltinu og það er ný heimsmynd sem blasir við okkur,“ segir Breki og það þurfi að taka mið af því.

Þær greiðslumiðlanir sem starfa á Íslandi eru Visa og Mastercard. Breki segir kostnað við rekstur þeirra um 50 milljarða árlega. Til samanburðar hafi kostað um 7 og hálfan milljarð að byggja Eddu, hús íslenskunnar, og áætlaður kostnaður við nýjan Landspítala 210 sé milljarðar.

„Þetta eru stórar upphæðir og það sem er áhugavert er að í samanburði við önnur lönd er þetta miklu meira,“ segir Breki. Upphæðin sé um eitt prósent af vergri landsframleiðslu Íslands. Sambærilegt hlutfall í Noregi sé um 0,8 prósent og 0,5 prósent í Danmörku.

Hann segir hluta af þessum aukna kostnaði vera gjaldmiðilinn. Krónan sé lítil og það sé kostnaður við það. Annað sé að hin löndin séu með sinn eigin greiðslumiðil. Danir séu með Dankort og Norðmenn BankAxept.

Sjá einnig: Milljarðar í ó­þarfa kostnað fyrir neyt­endur

„Það sem er áhugavert í þessu er að þegar við kaupum eitthvað með korti á Íslandi þá þarf það að fara með leiðslum til útlanda. Þar er gert upp og svo kemur það til baka til Íslands,“ segir Breki og þannig þurfi Íslendingar að reiða sig á netkaplana til að geta greitt með korti.

Breki segist ekki vita hver kostnaður yrði við innlenda greiðslumiðlun en hún ætti að nálgast það sem er í Danmörku eða Noregi. Það verði alltaf einhver kostnaður við að færa til peninga og það kosti meira að segja að færa til reiðufé.

„Kostnaður heimilanna við reiðufé er um 600 milljónir á ári,“ segir Breki. Það sé til dæmis vegna úttektar í hraðbönkum. Samfélagslegur kostnaður sé um fimm milljarðar sem megi rekja til þess að það þarf að prenta peningana og slá í myntina og geyma hana.

Sjá einnig: Greiðslu­miðlun kosti Ís­lendinga þrisvar sinnum meira en Dani

„Það er ekkert ókeypis að nota reiðufé þó að það sé að einhverju leyti hagstæðara.“

Breki segir boltann í þessu máli hjá Seðlabankanum. Þar sé verið að vinna mikið starf við að finna hvaða valmöguleikar séu bestir.

Breki segir alls konar lausnir í boði, það sé BNPL (Buy now, pay later) eins og Kass og Síminn Pay en langflestir greiði fyrir sín kaup með því að nota greiðslukort. Þá sé til eitthvað sem heitir Blikk sem er „fyrsta greiðslulausnin á Íslandi sem byggir alfarið á millifærslum í rauntíma,“ samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins og að færslurnar fari beint frá reikningi til reiknings án þess að nota milliliði eins og Visa eða Mastercard.

„Það þarf bara að taka ákvörðun,“ segir Breki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×