Önnur sprakk í Leipzig í Þýskalandi og hin í Birmingham í Englandi og sprungu báðar sprengjurnar í júlí.
Þær munu báðar hafa verið faldar í nuddtækjum og sendar frá Litháen. Yfirvöld í Evrópu og vestanhafs hafa lítið sem ekkert tjáð sig um málið en fjölmiðlar hafa haft eftir embættismönnum að spjótin hafi fljótt beinst af útsendurum GRU.
GRU sér að mestu um njósnir og annarskonar leynilegar aðgerðir Rússa á erlendri grundu. Leyniþjónustan FSB, sér um aðgerðir í Rússlandi og öðrum nærliggjandi ríkjum.
Útsendarar GRU hafa verið nokkuð umsvifamiklir í Evrópu á undanförnum árum. Þeir eru meðal annars grunaðir um að hafa eitrað fyrir Skripal, feðginunum, um ýmsar tölvuárásir og skemmdarverk í Evrópu.
Sjá einnig: Útsendarar GRU sagðir hafa sent eldsprengjur með flugvélum
Wall Street Journal hafði birt eina mynd í síðasta mánuði en Guardian birti fleiri myndir í gær. Þær renna stoðum undir það að eldsprengjurnar hafi byggt á magnesíum, sem á að gera erfiðara að slökkva eldinn með þeim búnaði sem finna má um borð í flugvélum.
Sérstök duftslökkvitæki þarf til að slökkva magnesíumeld.
Þær sýna einnig að mikill eldur kviknaði vegna að minnsta kosti einnar sprengingu
Fjórir hafa verið handteknir í Póllandi vegna rannsóknarinnar og munu tvær sambærilegar eldsprengjur hafa fundist þar.
Undanfarna mánuði og jafnvel ár hafa rússneskir útsendarar verið sakaðir um fjölda skemmdarverka, íkveikja og morða, svo eitthvað sé nefnt, í Evrópu.
Bruno Kahl, yfirmaður einnar af leyniþjónustum Þýskalands, varaði nýverið við því að árásum og skemmdarverkum Rússa myndi fjölga á næstunni.
„Umfangsmikil notkun Rússa á blönduðum hernaði eykur líkurnar á því að NATO muni á endanum íhuga að virkja fimmtu greinina um sameiginlegar varnir.“
Kahl sagði einnig líklegt að Rússar myndu áfram reyna að kanna þær rauðu línur sem lagðar hafa verið og grafa undan samstöðu Vesturlanda og NATO.
„Í huga Rússa yrði markmiði þeirra náð ef fimmta greinin yrði ekki virkjuð í tilfelli árásar Rússa.“
Hann sagði Rússa ekki þurfa að senda skriðdreka til vesturs, heldur myndi þeim duga að senda „litla græna menn“, eins og þeir gerðu á Krímskaga á sínum tíma, til einhvers Eystrasaltsríkis. Það gætu þeir gert undir því yfirskini að vernda minnihlutahópa rússneskumælandi fólks gegn meintu ofbeldi.