Sverrir segist í tilkynningu einnig hafa kvartað yfir störfum lögregluþjónsins til Nefndar um eftirlit með lögreglu og sent bréf til þingmanna þar sem hann kallar eftir því að nefndin verði efld.
„Það er nauðsynlegt að borgarar þurfi ekki að óttast óréttmætar aðgerðir lögreglu,“ segir Sverrir í tilkynningunni.
Þá segist hann íhuga að leggja fram frekari kærur vegna annarra aðgerða lögreglu og þar á meðal innsiglunar á skemmtistaðnum Exit í lok apríl á þessu ári.
„Þetta ferli hefur verið mjög þungbært, og það er erfitt að skilja hvers vegna lögreglan hefur beitt mig svona harkalegum aðgerðum. Ég krefst þess að tekið verði á valdníðslu og óréttlæti í starfsemi lögreglu og að stjórnvöld tryggi aukið eftirlit með störfum hennar til að koma í veg fyrir að slík mál endurtaki sig.“
Sakaður um að ýta í lögregluþjón
Lögregluþjóninn hafði kært Sverri vegna atviks sem átti sér stað þann 17. september 2023. Þá voru lögregluþjónar við eftirlit á skemmtistaðnum B við Bankastræti 5 og sögðu þeir Sverri hafa meinað þeim inngöngu á þeim grunni að þeir hefðu ekki heimild til eftirlits þar inni.
Lögregluþjónarnir sögðu hann hafa staðið í dyragætt staðarins og veist með ofbeldi að einum þeirra með því að „ýta að öxl sinni eða bringu í“ lögregluþjóninn svo hann „færðist aftur á bak og missti jafnvægi“.
Við skýrslutöku sagði Sverrir að hann hefði efast um heimild lögreglunnar til að framkvæma eftirlit á staðnum og óskað eftir að þeir sýndu honum einhverja slíka heimild. Eftir deilur hafi lögregluvarðstjóri komið á vettvang og sagt Sverri að hann yrði handtekinn ef hann færði sig ekki.
Í kjölfar þess hafi Sverrir stigið til hliðar og lögregluþjónarnir farið inn á skemmtistaðinn.
Sverrir sagði við skýrslutöku að hann taldi beiðni um framvísun eða sönnun á heimild til eftirlits og rökræður um málið ekki tálmun á störfum lögreglu.
Þá sagðist hann ekki hafa skellt eða ýtt öxl sinni í lögregluþjónninn heldur hafi hann hallað sér upp að honum til að heyra hvað hann væri að segja, því það hefði verið hátt inn á skemmtistaðnum. Hann gæti ekki útilokað að hann hafi rekist eitthvað í lögregluþjóninn.
Ekki hægt að sjá að Sverrir hafi tálmað störf lögreglu
Í bréfi ríkissaksóknara til Sverris segir að enginn vafi leiki á því að lögregluþjónar hafi haft heimild til eftirlits á skemmtistaðnum. Þá kemur fram að myndbandsupptökur úr vestismyndavélum lögregluþjóna sýni að eftir að Sverrir ræddi við varðstjórann í um mínútu hafi hann stigið til hliðar þegar ýtt var við honum og ekki staðið í vegi þeirra. Ekki sé hægt að meta málið svo að hann hafi tálmað störf lögreglunnar.
Þá sýni myndefnið einnig að Sverrir hafi verið handtekinn þegar hann hallaði sér í átt að lögregluþjóni, með hendur í vösum, og hafi virst stíga í átt að honum þegar lögregluþjónninn sagði eitthvað við Sverri. Ekki sé hægt að greina hvort einhver snerting hafi orðið þeirra á milli, þó viðbrögð lögregluþjóna við atvikinu bendi til að svo hafi verið.
Þá kemur fram í bréfinu að með hliðsjón af gögnum málsins sé ekki talið líklegt að hægt væri að sakfella Sverri og því verði málið fellt niður.