Félagsfólk Kennarasambands Íslands í átta skólum samþykkti í dag verkfallsaðgerðir sem hefjast í lok mánaðar. Um er að ræða fjóra leikskóla, leikskóli Seltjarnarness, leikskólinn Holt í Reykjanesbæ, leikskólinn Drafnarsteinn í Reykjavík og leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki, þrjá grunnskóla, Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri og svo Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu).
„Fyrstu viðbrögðin eru „Jess, þrjár vikur í frí. Partý.“ En þá tefjumst við um þrjár vikur. Það hefur áhrif á hvaða menntaskóla við komumst í og námið sem við fáum. Það er alveg erfitt að vinna upp þriggja vikna nám,“ segir Sóley Anna Myer, nemandi í Laugalækjaskóla.
Hún hefur áhyggjur af því að missa úr námi en finnur þó til með kennurunum.
„Mér finnst þetta nauðsynlegt fyrir þau. Mér finnst þetta gott fyrir þau því þetta þarf að breytast. En þetta bitnar á börnunum. Semjið við kennarana,“ segir Sóley.

Samnemandi hennar Sturlaugur Hrafn Ólafsson var ögn slakari. Hann horfir á þetta sem þriggja vikna frí sem hann myndi nýta í að gera góða hluti.
„Bara rífa sig í gang þegar verkfallið er búið ef það kemur. Annars bara áfram gakk,“ segir Sturlaugur.

Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður Stöðvar 2 á Selfossi ræddi við nokkra drengi um verkfallið í dag.
„Ég er í námi þar sem ég má ekki missa af önn en það fer eftir því hvernig þetta endar,“ segir Guðmundur Gauti Ívarsson.
Spurðir um lengd verkfallsins, sem á að vera tæpir tveir mánuðir, segja Guðmundur Gauti og vinir hans, Gunnar Hrafn Birgisson og Sigmar Freyr Símonarson, hana bara vera fína.

Benjamín Óli Ólafsson segir kennara eiga skilið að fá hærri laun. Hann er á báðum áttum með hvað honum finnst um verkfallið.
„Ef ég fæ allar einingarnar sem ég á að fá fyrir þessa önn þá er ég sáttur, annars ekki,“ segir Benjamín. „Þetta er fínt, meira frí,“ segir Mikael Darri Hjartarson, félagi hans.
