Erlent

Leggur viðskiptaþvinganir á rúss­neska olíurisa

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fyrirhuguðum fundi Trump og Pútín var frestað um óákveðinn tíma í gær. 
Fyrirhuguðum fundi Trump og Pútín var frestað um óákveðinn tíma í gær.  EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað þungar refsiaðgerðir á hendur tveimur stærstu olíurisum Rússlands. Hann sakar Rússlandsstjórn um ónóga viðleitni til að koma á friðarsamkomulagi vegna stríðsins í Úkraínu.

Trump tilkynnti um refsiaðgerðirnar á skrifstofu sinni í dag en í gær var fyrirhuguðum fundi Trump og Vladimírs Pútín Rússlandsforseta í Búdapest frestað um óákveðinn tíma

Daginn áður höfnuðu Rússar tillögu Trump um skilyrðislaust vopnahlé svo hægt yrði að hefja almennilegar friðarviðræður.

Í dag fundaði Trump með Mark Rutte framkvæmdastjóra NATO um áframhaldandi friðarviðræður og tilkynnti um aðgerðirnar í kjölfar fundarins. Hann hefur að undanförnu þrýst á Rússlands- og Úkraínustjórn að verða við kröfum hins ríkisins, til skiptis. 

Samkvæmt umfjöllun Reuters eru tveir stærstu olíuframleiðendur Rússlands undir í refsiaðgerðunum, Rosneft og Lukoil. 

„Þar sem Pútín neitar að binda enda á þetta tilgangslausa stríð verður lagt viðskiptabann á tvö stærstu olíufyrirtæki Rússlands sem fjármagna stríðsmaskínu kremlstjórnarinnar. Ráðuneytið er reiðubúið til að ráðast í frekari aðgerðir ef nauðsynlegt,“ segir í færslu Scott Bessent fjármálaráðherra Bandaríkjanna á X. 

Fyrr í dag var greint frá því að Rússlandsher hefði drepið minnst sex og sært fleiri í loftárásum á Úkraínu í nótt. Þá eru sjálfsprengidrónar sagðir hafa hæft leikskóla í Karkív.

Trump sagðist jafnframt í lok fundarins með Rutte vera opinn fyrir því að afturkalla aðgerðirnar ef Rússar samþykki að binda enda á stríðið.

„Í hvert skipti sem ég tala við Vladimír eigum við góð samtöl. Við komumst bara aldrei að neinni niðurstöðu,“ sagði Trump.

Bretlandsstjórn fyrirskipaði í síðustu viku refsiaðgerðir gegn Rosneft og Lukoil en það fyrrnefnda er í ríkiseigu. Evrópusambandið hefur sömuleiðis lagt viðskiptaþvinganir á Rosneft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×