Þetta segir Sally Davies, fyrrverandi landlæknir Englands og sérlegur sendifulltrúi Bretlands í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Guðdóttir Davies lést af völdum sýkingar sem engin lyf unnu á, aðeins 38 ára gömul.
Davies segir umræddan vanda „bráðari“ en loftslagsbreytingar en um 1,2 milljón manns deyja vegna sýklalyfjaónæmis á ári hverju. Sýklalyfjaónæmi er það þegar bakteríur og veirur mynda smám saman ónæmi gegn lyfjum og þau hætta að virka.
Sú staða gæti komið upp að einangra þyrfti fjölda fólks til að vernda fjölskyldur þeirra og samfélög, segir Davies. Hún áætlar að heimsbyggðin hafi um það bil áratug til að þróa nýjar meðferðir áður en illa fer.
Stjórnvöld á Bretlandseyjum hafa kynnt nýja aðgerðaráætlun gegn sýklalyfjaónæmi sem felur meðal annars í sér að takmarka notkun sýklalyfja, auka eftirlit með ónæmum sýkingum og búa til hvata fyrir fyrirtæki að þróa ný lyf og bóluefni.
Samkvæmt umfjöllun Guardian hefur Davies freistað þess að vekja athygli á vandanum í meira en áratug en guðdóttir hennar, Emily Hoyle, sem hafði tvívegis gengist undir lungnaígræðslu, lést af völdum lyfjaónæmrar sýkingar fyrir um tveimur árum.
Hoyle gaf Davies leyfi til að segja sögu sína áður en hún lést.