Lítil þátttaka í krabbameinsskimunum - ekki er allt sem sýnist Ágúst Ingi Ágústsson skrifar 17. febrúar 2024 08:01 Nýlegt ársuppgjör Embættis landlæknis vegna krabbameinsskimana á Íslandi fyrir árið 2022 sýnir sláandi samdrátt í þátttöku kvenna í krabbameinsskimunum. Þátttaka í skimunum fyrir bæði brjósta- og leghálskrabbameini náði sögulegu lágmarki árið 2021 og þátttakan árið 2022 var enn minni. Þessar tölur eru ekki í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Þátttaka í krabbameinsskimunum á Íslandi hefur jafnt og þétt minnkað um langt skeið en sú þróun hefur aftur á móti verið í takt við það sem þekkist erlendis. Þátttaka í krabbameinsskimunum hefur almennt verið lítillega lækkandi víða en sú lækkun sem við sjáum fyrir árin 2021 og 2022 á sér ekki fordæmi á Íslandi eða annars staðar. Hér á landi förum við eftir alþjóðlegum markmiðum um þátttöku í krabbameinsskimunum. Okkar markmið eru að 75% kvenna taki þátt í skimun fyrir brjóstakrabbameini en viðunandi að ná 70%. Fyrir skimun fyrir leghálskrabbameini er æskilegt að þátttakan sé 85% en viðunandi að hún sé 70%. Þessum markmiðum hefur Ísland ekki náð um langt skeið. Eðlilegt er að spyrja sig hver ástæðan fyrir þessu sé. Ástæðurnar fyrir jafnt og þétt minnkandi þátttöku síðustu ár og áratugi eru ekki þær sömu og þær sem hafa valdið þeirri dýfu sem við sjáum 2021 og 2022. Heimsfaraldur dró úr þátttöku Árið 2020 dróst þátttaka í krabbameinsskimunum saman vegna kórónuveirufaraldursins. Vegna fjarlægðar- og samkomutakmarkana neyddist Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til þess að loka um tíma. Einnig voru færri leghálssýni tekin í lok árs 2020 vegna fyrirhugaðrar lokunar Leitarstöðvarinnar. Árið 2021 tók heilsugæslan við framkvæmd leghálsskimana og Landspítali tók við framkvæmd skimana fyrir brjóstakrabbameini. Fram að þeim tíma hafði Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands annast framkvæmd með báðum skimunum. Ýmsir erfiðleikar komu upp í tengslum við þessa breytingu sem leiddu af sér fordæmalausan samdrátt í fjölda skimana. Sem betur fer reyndust þeir erfiðleikar tímabundnir og þjónustan við konur komin í eðlilegt horf bæði hjá heilsugæslunni og hjá Landspítala undir lok árs 2021. Óhætt er að fullyrða að konur séu almennt ánægðar með fyrirkomulagið og þjónustuna eins og hún er veitt í dag. Þannig urðu kórónuveirufaraldurinn og skipulagsbreytingar á framkvæmd skimananna til þess að draga skyndilega mjög mikið úr þátttöku í skimununum árin 2020 og 2021. Við það bætist að árið 2021 var eldri konum en áður boðið upp á þátttöku í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Áður var konum að 69 ára aldri boðið upp á skimun en nú er miðað við 74 ár. Við það stækkaði hópurinn í heild verulega en sá hópur hafði eðli málsins samkvæmt ekki verið að mæta í skimanir árin á undan og það leiðir því tímabundið til þess að mælingar sýna meiri samdrátt í þátttöku eins og útskýrt verður nánar hér á eftir. Fleiri koma í skimun en hlutfallið lægra Ef skoðaður er fjöldi þeirra sem mætti í skimun, bæði fyrir brjósta- og leghálskrabbameini, þá var árið 2022 í raun ekki eins slæmt og þátttökutölurnar gefa til kynna. Fjöldi þeirra kvenna sem mætti í skimun fyrir brjóstakrabbameini árið 2022 var 12% meiri en árið 2021 og var einnig meiri en árið 2020. Bráðabirgðatölur um fjölda kvenna sem mætti í skimun fyrir brjóstakrabbameini 2023 nálgast þann fjölda sem mætti 2019 sem var metár. Fjöldi þeirra kvenna sem mætti í skimun fyrir leghálskrabbameini 2022 nálgaðist einnig þann fjölda sem mætti áður en Covid 19 skall á árið 2020. Fjöldinn á síðasta ári var á svipuðu róli, og fjöldinn bæði 2022 og 2023 er umtalsvert meiri en fjöldinn 2021. Ástæðan fyrir því að þátttaka í krabbameinsskimunum mælist mjög lág fyrir árið 2022 felst í því hvernig þátttakan er reiknuð út. Þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini er reiknuð sem fjöldi þeirra sem mæta í skimun yfir tveggja ára tímabil (árið sem gert er upp og árið þar á undan) sem hlutfall af heildarfjölda þeirra kvenna sem eru á skimunaraldri. Miðað er við tvö ár vegna þess að konum er ráðlagt að mæta á 2ja ára fresti í skimun. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er reiknuð á sama hátt nema þar er miðað við 3,5 ár aftur í tímann þar sem konum hefur verið ráðlagt að mæta á 3ja ára fresti í skimun. Þessar reiknireglur eru sambærilegar í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við til þess að hægt sé að bera þátttökutölur saman milli landa. Á þessu má sjá að árin á undan því ári sem gert er upp hafa áhrif á útreikning á þátttökunni og skýrir minnkandi þátttöku 2022 þrátt fyrir að fjöldi skimana sé á uppleið. Hægur samdráttur á sér aðrar skýringar Snarpur samdráttur á þátttöku í krabbameinsskimunum á sér skýringar og markmið okkar sem stöndum að þessu mikilvæga verkefni er að þátttakan aukist verulega aftur. Engu að síður þurfum við áfram að glíma við hægt en stöðugt minnkandi þátttöku í skimunum sem hefur verið raunin yfir lengri tíma. Skýringuna á því má að einhverju leyti rekja til breytinga á íslensku samfélagi. Þátttaka í skimunum er reiknuð út frá öllum konum sem eiga lögheimili hér á landi. Nýleg rannsókn sem unnin var hjá embætti landlæknis sýndi fram á gríðarmikinn mun á þátttöku kvenna eftir ríkisfangi. Í ljós kom að þátttaka í skimunum meðal kvenna með íslenskt ríkisfang er í raun ekki eins lítil og heildaruppgjörið sýnir heldur hefur mjög dræm þátttaka kvenna með erlent ríkisfang mikil áhrif á þátttökuna í heild. Rannsóknin leiddi í ljós að mikill fjöldi kvenna sem telja mætti farandverkamenn kemur til Íslands í leit að vinnu en dvelur hér aðeins stutt, innan við tvö ár, en hverfur svo aftur heim. Svo er misjafnt hvort þessar konur tilkynni þjóðskrá um breytt lögheimili. Þessar konur eru allar teknar inn í heildarfjölda þeirra sem eru á skimunaraldri. Það kemur hins vegar ekki á óvart að konur sem dvelja hér á landi í stuttan tíma séu ekki að hugsa sérstaklega um að mæta í krabbameinsskimun enda eru þær hér aðeins tímabundið. Einnig eru vísbendingar um að hluti kvenna sem býr hér í einhvern tíma sæki sér þessa þjónustu til síns heimalands. Það ber ekki að skilja skrif mín sem svo að þátttaka í krabbameinsskimunum sé viðunandi. Svo er ekki og því er mikilvægt að leitað verði leiða til þess að auka þátttökuna. En staðan er kannski ekki alveg eins slæm og tölurnar benda til. Tilraunaverkefni með opna tíma Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er nú með í undirbúningi tilraunaverkefni sem gengur út á að bjóða þeim konum sem ekki hafa mætt í skimun fyrir leghálskrabbameini að mæta í opna tíma án þess að þurfa að bóka tíma fyrirfram. Kannanir sem Krabbameinsfélagið lét gera fyrir nokkrum árum sýndu að konur eru almennt jákvæðar fyrir þátttöku í skimunum og flestar konur telja sig taka þátt. Þegar spurt var um ástæður þess að þær mættu ekki var langalgengasta ástæðan svokölluð „frestunarárátta“ eða einfaldlega það að humma hlutina fram af sér þangað til þeir gleymast. Einnig er vitað að núverandi fyrirkomulag við tímabókanir er óþjált og ákveðin hindrun fólgin í því að þurfa að hafa frumkvæði að því að bóka sér tíma, að ekki sé talað um að þurfa að hringja símtal til þess að bóka tíma. Æskilegt er að geta bðið konum upp á fyrirfram bókaða tíma í skimanir sem þær gætu með auðveldum hætti breytt á netinu. Þangað til hægt verður að bjóða upp á slíkt viljum við kanna hvort opið hús í leghálsskimanir mælist vel fyrir og geti aukið þátttökuna. Þetta tilraunaverkefni verður vel kynnt fyrir konum þegar þar að kemur. Áfram verður lögð áhersla á að sýnataka sé aðeins í boði fyrir þær konur sem kominn er tími á að mæta í skimun, enda hefur verið sýnt fram á að of tíðar skimanir geti verið skaðlegar og valdið óþarfa inngripum. Þó minni þátttaka erlendra kvenna í skimunum eigi sér ákveðnar skýringar er áhersla lögð á að ná til þeirra og bjóða þeim að koma í skimun. Það á sérstaklega við um þær konur sem dvelja hér langdvölum. Þar er verið að leita leiða til að ná til þeirra, til dæmis með því að þýða upplýsinga- og fræðsluefni á erlend tungumál og beina auglýsingum sérstaklega að þessum hópi til að kynna skimanirnar fyrir þeim. Gjaldtaka getur verið hindrun Bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt að gjaldtaka fyrir skimun getur verið hindrun fyrir þátttöku. Nú eiga konur kost á leghálssýnatöku hjá heilsugæslunni fyrir aðeins 500 krónur en kostnaður við skimun fyrir brjóstakrabbameini er 6.100 krónur. Með því að fella niður gjaldtöku fyrir skimun fyrir brjóstakrabbameini er líklegt að þátttaka muni aukast, en eins og áður kom fram þá er hún mun lakari en þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini. Minnkandi þátttaka í krabbameinsskimunum er mikið áhyggjuefni enda er um að ræða mikilvæga heilsuvernd fyrir konur. Þetta er hagsmunamál okkar allra. Reglubundin skimun fyrir leghálskrabbameini minnkar líkurnar á því að fá krabbamein um 90% og dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins lækkar um allt að 40% meðal þeirra kvenna sem mæta reglubundið í skimun. Því vil ég nota tækifærið og hvetja konur sem ekki hafa mætt í skimanir til að mæta þegar boðin berast og hvetja einnig hver aðra. Það ætti að vera jafn sjálfsagt að mæta í krabbameinsskimanir eins og að fara með bílinn í skoðun. Höfundur er yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skimun fyrir krabbameini Krabbamein Heilbrigðismál Landspítalinn Mest lesið Halldór 23.8.2025 Halldór Heildstætt heilbrigðiskerfi – hagur okkar allra Alma D. Möller Skoðun Vanþekking eða vísvitandi blekkingar? Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun „I believe the children are our future…“ Karen Rúnarsdóttir Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir Skoðun Er Akureyri að missa háskólann sinn? Aðalbjörn Jóhannsson Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson Skoðun Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um umræðuefni Aðalsteinn Haukur Sverrisson Skoðun Skoðun Skoðun Heildstætt heilbrigðiskerfi – hagur okkar allra Alma D. Möller skrifar Skoðun Vanþekking eða vísvitandi blekkingar? Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun „I believe the children are our future…“ Karen Rúnarsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi félagasamtaka og magnað maraþon Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar Skoðun Allt sem ég þarf að gera Dagbjartur Kristjánsson skrifar Skoðun Eldri borgarar – áhrif aðildar að Evrópusambandinu (ESB) Þorvaldur Ingi Jónsson skrifar Skoðun Meiri gæði og mun minni álögur - Hveragerðisleiðin í leikskólamálum Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,Sandra Sigurðardóttir,Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir,Halldór Benjamín Hreinsson,Njörður Sigurðsson skrifar Skoðun Reykjavíkurborg stígur fyrsta skrefið í snjallvæðingu umferðarljósa! Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar Skoðun Framtíðin í fyrsta sæti – mikilvægi forgangsröðunar á tillögum Kópavogsbæjar í grunnskólamálum Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar Skoðun Notkun ökklabanda Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Skólaskætingur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir skrifar Skoðun Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um umræðuefni Aðalsteinn Haukur Sverrisson skrifar Skoðun Ný sókn í menntamálum Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar Skoðun Þjóðarmorð, fálmandi mjálm eða aðgerðir? Viðar Hreinsson skrifar Skoðun Vin í eyðimörkinni – almenningsbókasöfn borgarinnar Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar Skoðun Er Akureyri að missa háskólann sinn? Aðalbjörn Jóhannsson skrifar Skoðun Tíu staðreyndir um alvarlegustu kvenréttindakrísu heims Stella Samúelsdóttir skrifar Skoðun Ég vildi óska þess að ég hefði hreinlega fengið krabbamein Íris Elfa Þorkelsdóttir skrifar Skoðun Mestu aularnir í Vetrarbrautinni Kári Helgason skrifar Skoðun Fjárfestum í fyrsta bekk, frekar en fangelsum Hjördís Eva Þórðardóttir skrifar Skoðun Eftirlíking vitundar og hætturnar sem henni fylgja Þorsteinn Siglaugsson skrifar Skoðun Andaðu rólega elskan... Ester Hilmarsdóttir skrifar Skoðun Gagnvirkni líkama og vitundar til heilbrigðis Þórdís Hólm Filipsdóttir skrifar Skoðun Nýjar lausnir í kennslu – gamlar hindranir Bogi Ragnarsson skrifar Skoðun Kópavogsleiðinn Ragnar Þór Pétursson skrifar Skoðun Samstarf sem skilar raunverulegum loftslagsaðgerðum Nótt Thorberg skrifar Skoðun Lærum að lesa og reikna Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Loforðið sem borgarstjóri gleymdi Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Kristrún, það er bannað að plata Snorri Másson skrifar Skoðun Öndunaræfingar í boði SFS Vala Árnadóttir skrifar Sjá meira
Nýlegt ársuppgjör Embættis landlæknis vegna krabbameinsskimana á Íslandi fyrir árið 2022 sýnir sláandi samdrátt í þátttöku kvenna í krabbameinsskimunum. Þátttaka í skimunum fyrir bæði brjósta- og leghálskrabbameini náði sögulegu lágmarki árið 2021 og þátttakan árið 2022 var enn minni. Þessar tölur eru ekki í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Þátttaka í krabbameinsskimunum á Íslandi hefur jafnt og þétt minnkað um langt skeið en sú þróun hefur aftur á móti verið í takt við það sem þekkist erlendis. Þátttaka í krabbameinsskimunum hefur almennt verið lítillega lækkandi víða en sú lækkun sem við sjáum fyrir árin 2021 og 2022 á sér ekki fordæmi á Íslandi eða annars staðar. Hér á landi förum við eftir alþjóðlegum markmiðum um þátttöku í krabbameinsskimunum. Okkar markmið eru að 75% kvenna taki þátt í skimun fyrir brjóstakrabbameini en viðunandi að ná 70%. Fyrir skimun fyrir leghálskrabbameini er æskilegt að þátttakan sé 85% en viðunandi að hún sé 70%. Þessum markmiðum hefur Ísland ekki náð um langt skeið. Eðlilegt er að spyrja sig hver ástæðan fyrir þessu sé. Ástæðurnar fyrir jafnt og þétt minnkandi þátttöku síðustu ár og áratugi eru ekki þær sömu og þær sem hafa valdið þeirri dýfu sem við sjáum 2021 og 2022. Heimsfaraldur dró úr þátttöku Árið 2020 dróst þátttaka í krabbameinsskimunum saman vegna kórónuveirufaraldursins. Vegna fjarlægðar- og samkomutakmarkana neyddist Leitarstöð Krabbameinsfélagsins til þess að loka um tíma. Einnig voru færri leghálssýni tekin í lok árs 2020 vegna fyrirhugaðrar lokunar Leitarstöðvarinnar. Árið 2021 tók heilsugæslan við framkvæmd leghálsskimana og Landspítali tók við framkvæmd skimana fyrir brjóstakrabbameini. Fram að þeim tíma hafði Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands annast framkvæmd með báðum skimunum. Ýmsir erfiðleikar komu upp í tengslum við þessa breytingu sem leiddu af sér fordæmalausan samdrátt í fjölda skimana. Sem betur fer reyndust þeir erfiðleikar tímabundnir og þjónustan við konur komin í eðlilegt horf bæði hjá heilsugæslunni og hjá Landspítala undir lok árs 2021. Óhætt er að fullyrða að konur séu almennt ánægðar með fyrirkomulagið og þjónustuna eins og hún er veitt í dag. Þannig urðu kórónuveirufaraldurinn og skipulagsbreytingar á framkvæmd skimananna til þess að draga skyndilega mjög mikið úr þátttöku í skimununum árin 2020 og 2021. Við það bætist að árið 2021 var eldri konum en áður boðið upp á þátttöku í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Áður var konum að 69 ára aldri boðið upp á skimun en nú er miðað við 74 ár. Við það stækkaði hópurinn í heild verulega en sá hópur hafði eðli málsins samkvæmt ekki verið að mæta í skimanir árin á undan og það leiðir því tímabundið til þess að mælingar sýna meiri samdrátt í þátttöku eins og útskýrt verður nánar hér á eftir. Fleiri koma í skimun en hlutfallið lægra Ef skoðaður er fjöldi þeirra sem mætti í skimun, bæði fyrir brjósta- og leghálskrabbameini, þá var árið 2022 í raun ekki eins slæmt og þátttökutölurnar gefa til kynna. Fjöldi þeirra kvenna sem mætti í skimun fyrir brjóstakrabbameini árið 2022 var 12% meiri en árið 2021 og var einnig meiri en árið 2020. Bráðabirgðatölur um fjölda kvenna sem mætti í skimun fyrir brjóstakrabbameini 2023 nálgast þann fjölda sem mætti 2019 sem var metár. Fjöldi þeirra kvenna sem mætti í skimun fyrir leghálskrabbameini 2022 nálgaðist einnig þann fjölda sem mætti áður en Covid 19 skall á árið 2020. Fjöldinn á síðasta ári var á svipuðu róli, og fjöldinn bæði 2022 og 2023 er umtalsvert meiri en fjöldinn 2021. Ástæðan fyrir því að þátttaka í krabbameinsskimunum mælist mjög lág fyrir árið 2022 felst í því hvernig þátttakan er reiknuð út. Þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini er reiknuð sem fjöldi þeirra sem mæta í skimun yfir tveggja ára tímabil (árið sem gert er upp og árið þar á undan) sem hlutfall af heildarfjölda þeirra kvenna sem eru á skimunaraldri. Miðað er við tvö ár vegna þess að konum er ráðlagt að mæta á 2ja ára fresti í skimun. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er reiknuð á sama hátt nema þar er miðað við 3,5 ár aftur í tímann þar sem konum hefur verið ráðlagt að mæta á 3ja ára fresti í skimun. Þessar reiknireglur eru sambærilegar í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við til þess að hægt sé að bera þátttökutölur saman milli landa. Á þessu má sjá að árin á undan því ári sem gert er upp hafa áhrif á útreikning á þátttökunni og skýrir minnkandi þátttöku 2022 þrátt fyrir að fjöldi skimana sé á uppleið. Hægur samdráttur á sér aðrar skýringar Snarpur samdráttur á þátttöku í krabbameinsskimunum á sér skýringar og markmið okkar sem stöndum að þessu mikilvæga verkefni er að þátttakan aukist verulega aftur. Engu að síður þurfum við áfram að glíma við hægt en stöðugt minnkandi þátttöku í skimunum sem hefur verið raunin yfir lengri tíma. Skýringuna á því má að einhverju leyti rekja til breytinga á íslensku samfélagi. Þátttaka í skimunum er reiknuð út frá öllum konum sem eiga lögheimili hér á landi. Nýleg rannsókn sem unnin var hjá embætti landlæknis sýndi fram á gríðarmikinn mun á þátttöku kvenna eftir ríkisfangi. Í ljós kom að þátttaka í skimunum meðal kvenna með íslenskt ríkisfang er í raun ekki eins lítil og heildaruppgjörið sýnir heldur hefur mjög dræm þátttaka kvenna með erlent ríkisfang mikil áhrif á þátttökuna í heild. Rannsóknin leiddi í ljós að mikill fjöldi kvenna sem telja mætti farandverkamenn kemur til Íslands í leit að vinnu en dvelur hér aðeins stutt, innan við tvö ár, en hverfur svo aftur heim. Svo er misjafnt hvort þessar konur tilkynni þjóðskrá um breytt lögheimili. Þessar konur eru allar teknar inn í heildarfjölda þeirra sem eru á skimunaraldri. Það kemur hins vegar ekki á óvart að konur sem dvelja hér á landi í stuttan tíma séu ekki að hugsa sérstaklega um að mæta í krabbameinsskimun enda eru þær hér aðeins tímabundið. Einnig eru vísbendingar um að hluti kvenna sem býr hér í einhvern tíma sæki sér þessa þjónustu til síns heimalands. Það ber ekki að skilja skrif mín sem svo að þátttaka í krabbameinsskimunum sé viðunandi. Svo er ekki og því er mikilvægt að leitað verði leiða til þess að auka þátttökuna. En staðan er kannski ekki alveg eins slæm og tölurnar benda til. Tilraunaverkefni með opna tíma Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er nú með í undirbúningi tilraunaverkefni sem gengur út á að bjóða þeim konum sem ekki hafa mætt í skimun fyrir leghálskrabbameini að mæta í opna tíma án þess að þurfa að bóka tíma fyrirfram. Kannanir sem Krabbameinsfélagið lét gera fyrir nokkrum árum sýndu að konur eru almennt jákvæðar fyrir þátttöku í skimunum og flestar konur telja sig taka þátt. Þegar spurt var um ástæður þess að þær mættu ekki var langalgengasta ástæðan svokölluð „frestunarárátta“ eða einfaldlega það að humma hlutina fram af sér þangað til þeir gleymast. Einnig er vitað að núverandi fyrirkomulag við tímabókanir er óþjált og ákveðin hindrun fólgin í því að þurfa að hafa frumkvæði að því að bóka sér tíma, að ekki sé talað um að þurfa að hringja símtal til þess að bóka tíma. Æskilegt er að geta bðið konum upp á fyrirfram bókaða tíma í skimanir sem þær gætu með auðveldum hætti breytt á netinu. Þangað til hægt verður að bjóða upp á slíkt viljum við kanna hvort opið hús í leghálsskimanir mælist vel fyrir og geti aukið þátttökuna. Þetta tilraunaverkefni verður vel kynnt fyrir konum þegar þar að kemur. Áfram verður lögð áhersla á að sýnataka sé aðeins í boði fyrir þær konur sem kominn er tími á að mæta í skimun, enda hefur verið sýnt fram á að of tíðar skimanir geti verið skaðlegar og valdið óþarfa inngripum. Þó minni þátttaka erlendra kvenna í skimunum eigi sér ákveðnar skýringar er áhersla lögð á að ná til þeirra og bjóða þeim að koma í skimun. Það á sérstaklega við um þær konur sem dvelja hér langdvölum. Þar er verið að leita leiða til að ná til þeirra, til dæmis með því að þýða upplýsinga- og fræðsluefni á erlend tungumál og beina auglýsingum sérstaklega að þessum hópi til að kynna skimanirnar fyrir þeim. Gjaldtaka getur verið hindrun Bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt að gjaldtaka fyrir skimun getur verið hindrun fyrir þátttöku. Nú eiga konur kost á leghálssýnatöku hjá heilsugæslunni fyrir aðeins 500 krónur en kostnaður við skimun fyrir brjóstakrabbameini er 6.100 krónur. Með því að fella niður gjaldtöku fyrir skimun fyrir brjóstakrabbameini er líklegt að þátttaka muni aukast, en eins og áður kom fram þá er hún mun lakari en þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini. Minnkandi þátttaka í krabbameinsskimunum er mikið áhyggjuefni enda er um að ræða mikilvæga heilsuvernd fyrir konur. Þetta er hagsmunamál okkar allra. Reglubundin skimun fyrir leghálskrabbameini minnkar líkurnar á því að fá krabbamein um 90% og dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins lækkar um allt að 40% meðal þeirra kvenna sem mæta reglubundið í skimun. Því vil ég nota tækifærið og hvetja konur sem ekki hafa mætt í skimanir til að mæta þegar boðin berast og hvetja einnig hver aðra. Það ætti að vera jafn sjálfsagt að mæta í krabbameinsskimanir eins og að fara með bílinn í skoðun. Höfundur er yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Skoðun Meiri gæði og mun minni álögur - Hveragerðisleiðin í leikskólamálum Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,Sandra Sigurðardóttir,Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir,Halldór Benjamín Hreinsson,Njörður Sigurðsson skrifar
Skoðun Reykjavíkurborg stígur fyrsta skrefið í snjallvæðingu umferðarljósa! Einar Sveinbjörn Guðmundsson skrifar
Skoðun Framtíðin í fyrsta sæti – mikilvægi forgangsröðunar á tillögum Kópavogsbæjar í grunnskólamálum Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar
Skoðun Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um umræðuefni Aðalsteinn Haukur Sverrisson skrifar