Skoðun

Er skyn­sam­legt að sam­eina Hafnar­fjörð og Garða­bæ?

Ó. Ingi Tómasson skrifar

Hafnarfjörður og Garðabær eru góðir grannar, sveitarfélögin sem liggja saman eiga nokkurra sameiginlega hagsmuna að gæta svo sem samgöngumannvirki og almenningssamgöngur. Íbúar Hafnarfjarðar eru um 31.000 og Garðabæjar um 17.000. Síðustu árin hafa sveitarfélögin verið rekin með ábyrgum hætti þannig að fjárhagsstaða þeirra er nokkuð góð og uppbygging íbúðarhúsnæðis hefur verið mikil í báðum sveitarfélögum.

Skynsöm uppbygging

Áform eru í Hafnarfirði um mikla uppbyggingu með þéttingu byggðar á Hraunum vestur og við hafnarsvæðið. Aðalskipulag Garðabæjar 2019-2030 gerir ráð fyrir töluverði uppbyggingu íbúða. Unnið er að nýju aðalskipulagi Hafnarfjarðar þar sem kostir undir nýtt land fyrir íbúðir eru í skoðun. Hafnfirðingar búa vel þegar kemur að innviðum og atvinnu, ný atvinnusvæði hafa risið með fjölda nýrra fyrirtækja, glæsileg höfn er í Hafnarfirði ásamt því að mikil uppbygging er í miðbænum. Sé litið til samgangna og annarra innviða væri skynsamlegt að Garðabær og Hafnarfjörður sameinist í uppbyggingu á svæðum sem liggja vel við samgöngum og öðrum innviðum.

Hagur samfélagsins

Með sameiningu sveitarfélaganna gæti styrkur nýs sveitarfélags til þjónustu við íbúa og fyrirtæki orðið enn öflugri en nú er, má þar t.d. nefna þjónustu við aldraða og fatlaða, heilsugæslu, skóla og leikskóla. Uppbygging nýrra íbúða í nýju sveitarfélagi yrði að mestu nálægt núverandi innviðum, svo sem gatna- og stofnvegakerfi, skólum og leikskólum svo og veitukerfi. Orð eru til alls fyrst og því ekkert sem mælir gegn því að samtalið á milli þessara sveitarfélaga sé tekið með hagsmuni íbúa að leiðarljósi.

Höfundur er íbúi í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×