Enski boltinn

Meiðsla­vand­ræði Man United halda á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Victor Lindelöf hefur spilað vel að undanförnu.
Victor Lindelöf hefur spilað vel að undanförnu. Rasid Necati Aslim/Getty Images

Manchester United verður mögulega án tveggja lykilmanna þegar liðið mætir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á morgun, laugardag.

Man United vann Chelsea 2-1 í miðri viku og stefnir á að byggja ofan á þann sigur gegn Bournmeouth á Old Trafford á morgun. Það er hins vegar ljóst að liðið verður án nokkurra lykilleikmanna en mikil meiðsli hafa herjað á leikmannahóp félagsins nærri alla leiktíðina.

Í dag staðfesti Man Utd að miðvörðurinn Victor Lindelöf yrði ekki með en hann fór af velli í hálfleik gegn Chelsea. Þá er óvíst hvort framherjinn Marcus Rashford geti verið með en hann er veikur og æfði ekki í dag.

Jákvæðu fréttirnar eru þær að Raphael Varane, einn af miðvörðum liðsins, er búinn að jafna sig af bakmeiðslum sem héldu honum utan hóps. Hann verður því að öllum líkindum meðal þeirra sem verða boðaðir í leikinn en ólíklegt er að hann byrji.

Með sigri getur Man United jafnað nágranna sína í Man City að stigum en Englandsmeistararnir spila ekki fyrr en á sunnudag. Sömu sögu er að segja af Tottenham Hotspur sem er í 5. sæti með jafn mörg stig og Man Utd en betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×