Körfubolti

Helena leggur skóna á hilluna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir er hætt í körfubolta.
Helena Sverrisdóttir er hætt í körfubolta. Vísir/Vilhelm

Helena Sverrisdóttir sem margir telja bestu körfuknattleikskonu Íslands fyrr og síðar hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hún greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni nú í dag.

Helena hefur átt við meiðsli að stríða síðustu misseri en hún var engu að síður valin í íslenska landsliðshópinn sem lék tvo leiki gegn Rúmeníu og Tyrkjum á dögunum. Með þátttöku sinni í leikjunum tveimur varð hún leikjahæsta A-landsliðskona Íslands frá upphafi.

Helena er uppalin hjá Haukum en lék einnig sem atvinnumaður í mörg ár í Slóvakíu, Ungverjalandi og Póllandi. Hún varð bæði deildar- og bikarmeistari í Slóvakíu. Hún á að baki 81 landsleik fyrir Ísland.

Helena hefur tólf sinnum verið kjörin körfuknattleikskona ársins og fagnað Íslandsmeistaratitlinum fimm sinnum og bikarmeistaratitlinum jafn oft. 

Helena segir að hún hafi farið í segulómskoðun á hné á miðvikudag og að hún hafi verið í vandræðum vegna hnémeiðslanna síðustu tvö árin. Hún segir að vandamál vegna brjósks í hnénu geri það að verkum að hún þurfi að hætta körfuknattleiksiðkun.

„Ef ég ætla mér að geta skroppið í göngu, hlaupið á eftir börnunum mínum og lifað við ákveðin lífsgæði sem ég tel mikilvæg þá er þetta því miður staðan.“

Eftir langan feril þar sem ég slapp nánast algjörlega við einhver stór meiðsli hafa síðustu 2 ár verið mjög erfið. Þetta hefur verið að gerast hægt og rólega frá fyrstu aðgerð og ég mögulega heppin að þetta kom í ljós núna frekar en að ég myndi hjakkast á þessu í allan vetur og gera enn verr,“ skrifar Helena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×