Skoðun

Við þurfum öfluga bændur!

Friðrik Sigurðsson skrifar

Eftir á annan tug stýrivaxtahækkana er farið að reyna verulega á fjárhaginn hjá mörgum íbúum og rekstraraðilum á Íslandi. Bændur landsins virðast vera „Kanarífuglinn í kolanámunni“ og eru margir þeirra orðnir algjörlega uppgefnir á stöðunni og farnir að tala um að hætta rekstri. Það yrði mikið áfall fyrir þá og þeirra fjölskyldur svo ekki sé horft til þess hversu mikið áfall það yrði fyrir þjóðina ef fjöldi bænda hættir rekstri.

Bændur eru og eiga að vera áfram ein af grunnstoðum samfélagsins á Íslandi. Sú grunnstoð þarf að vera sjálfbær og byggð á almannahagsmunum. Matvælaöryggi þjóðarinnar er að mati undirritaðs augljóslega einn af þeim þáttum sem máli skipta þegar kemur að velferð þjóðarinnar.

Ungir bændur þurfa að fá eðlilegan stuðning til að koma undir sig fótunum og hefja búskap. Hér þarf sameiginlegt átak hins opinbera bæði til að auðvelda þeim að hefja búskap og einnig til að auðvelda þeim að halda áfram búskap þegar vextir eru farnir að sliga eðlilegan rekstur hjá þeim.

Ríkisvaldið brást hratt við í Covid og leysti ferðaþjónustuna úr erfiðri stöðu með lánum á hagstæðum vöxtum og styrkjum. Slíkar skammtímalausnir þarf að finna í málum bænda sem fyrst.

Til lengri tíma er það svo skoðun undirritaðs að frelsi bænda til nýsköpunar og framleiðslu þarf að auka og styrkja .arf enn frekar fjármagn til nýsköpunar í sveitum landsins.

Þar er að mínu mati innganga í ESB ein af forsendum þess að ná meiri stöðugleika í fjármálum landsins og efla getu landbúnaðar á Íslandi til stórkostlegs tollfrjáls útflutnings til ESB landa á heilnæmum landbúnaðarafurðum sem bændur Íslands framleiða.

Ég hvet að lokum alla sem styðja bændur að mæta í Salinn í Kópavogi á morgun fimmtudaginn 26. október kl.13:00 og standa þétt við bakið á ungum bændum sem halda þar baráttufund fyrir því að tryggja sér laun fyrir lífi. Það skiptir okkur öll máli að á Íslandi verði áfram öflugir bændur.

Höfundur er fulltrúi í málefnaráði Viðreisnar, sonur fyrrverandi bænda og Þingeyingur.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×